9
HÁRSBREIDD
HÁRSBREIDD
Engilbjört hafði verið hætt komin og sennilega hársbreidd frá dauða tveimur árum áður, eins og fyrr var rakið. En það var ekki í fyrsta sinn sem einhver nákominn mér var ískyggilega nálægt því að láta lífið.
Þegar við Pétur bróðir vorum litlir strákar, líklega fjögurra og fimm ára, vorum við eitt sinn í útilegu á Snæfellsnesi með foreldrum okkar. Við príluðum eitthvað upp og fundum góðan stað til að fara í frisbí með loki af lítilli plastfötu. Eftir á að hyggja var staðurinn að vísu ekki sérlega heppilegur frisbíleikvangur því að við vorum rétt hjá klettabrún þaðan sem var töluvert fall niður. Ég sé ennþá fyrir mér þegar ég kastaði plastlokinu til bróður míns; í stað þess að svífa í áttina til hans flaug það út fyrir klettabrúnina. Pétur hljóp til og reyndi að teygja sig eftir því með afleiðingum sem lesandinn getur rétt ímyndað sér. Hann hrapaði niður og lenti með höfuðið á klöpp eða steini. Það næsta sem ég man er Pétur liggjandi meðvitundarlaus í kjöltu mömmu í aftursæti bílsins og við á leið á sjúkrahúsið í Stykkishólmi. Hann reyndist höfuðkúpubrotinn, sem var þessu sjúkrahúsi ofviða svo hann fór þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Þar var framkvæmd á honum aðgerð á höfði. Ég man eftir að hafa heimsótt hann á sjúkrahúsið í Fossvogi sem þá hét ennþá Borgarspítalinn. Það er fyrst núna, þegar ég rifja þetta upp, sem það rennur upp fyrir mér hversu óbærilegt það hefði verið fyrir mig alla ævi að hafa átt sök á dauða fjögurra ára gamals bróður míns.
Þegar Kári Freyr var níu ára hringdi hann í mig og sagði alveg pollrólegur: „Pabbi, geturðu nokkuð komið? Ég var aðeins að meiða mig.“ Hann var þá skammt frá heimili okkar, fyrir utan Dóminós á Hjarðarhaga. Þegar ég kom á staðinn brá mér heldur en ekki í brún. Hann sat á gangstéttinni með ljótt sár á hálsinum og hjólið hans lá laskað í götunni. Ekið hafði verið á hann þar sem hann hjólaði eftir gangstéttinni; ökumaðurinn var að keyra út af bílastæði og sá hann ekki fyrir trjám og grindverki. Hjólið hafði skorðast undir bílnum og Kári dregist með því kannski tvo eða þrjá metra þar sem ökumaðurinn gerði sér ekki strax grein fyrir hvað hafði gerst. Handfangið á handbremsunni hafði stungist inn í hálsinn á honum og skilið eftir sig nokkuð ískyggilegt sár. Hjólið hafði bókstaflega skorið hann á háls. Ég held að það þurfi ekki að fara fleiri orðum um hversu hætt hann var kominn þarna en hann var heppinn og sárið var einfaldlega saumað saman.
Nokkrum árum síðar, sumarið 2017, vorum við Engilbjört og Kári á ferðalagi um Króatíu og Ítalíu. Á Amalfí-ströndinni gistum við á litlu hóteli sem var í um tíu til fimmtán mínútna göngufjarlægð frá sjálfu þorpinu. Gönguleiðin var meðfram þröngum akvegi sem þræðir bratta og vogskorna strandlengjuna. Vegurinn er svo mjór og hlykkjóttur að óbrjáluðum manni dytti varla í hug að leyfa umferð um hann í báðar áttir en þarna er allt á fleygiferð úr báðum áttum, mér liggur við að segja úr öllum áttum. Stóreflis rútur, vespur og allt þar á milli. Hvergi er pláss fyrir meira en örmjóa gangstétt og sums staðar enga, þannig að maður neyðist til að labba á veginum með lífið í lúkunum. Kári gekk fremstur þegar bíll gerði sig líklegan til að bakka út af bílastæði í veg fyrir hann. Hann stökk ósjálfrátt til hliðar, inn í traffíkina. Í sömu andrá fór lítil rúta fram hjá á fleygiferð og var bókstaflega hársbreidd frá því að keyra hann niður. Við Engilbjört horfðum upp á þetta og misstum andann. Ég er eiginlega varla búinn að jafna mig á þessu ennþá; atvikið kemur af og til óumbeðið upp í hugann.
Sumarið 2014 lét íslenskur drengur lífið í skemmtigarðinum Terra Mitica á Spáni þegar festing í rússíbana gaf sig. Guðni okkar hafði farið í sama rússíbana þremur vikum áður. Samúðin með aðstandendum drengsins blandaðist óhjákvæmilega mikilli ónotatilfinningu yfir því að Guðni hefði mögulega verið í hættu. Hann var kannski ekki hársbreidd frá því en við upplifðum það þannig.
Sjálfur var ég nálægt því að geispa golunni í kringum jólin 2013. Ég fann fyrir brjóstsviða við minnstu áreynslu, fannst þetta tengjast öndunarveginum og datt helst í hug astmi en óttaðist líka lungnakrabba eftir áratuga reykingar. Þetta ágerðist og ég þoldi sífellt minni áreynslu. Þegar kanínan okkar dó á milli jóla og nýárs gat ég ekki grafið holu úti í garði fyrir hana; varð að játa mig sigraðan og biðja Guðna að klára verkið. Eftir áramótabrennuna á Ægisíðu þurfti ég að hvíla mig á stuttu gönguferðinni heim á Fornhagann. Læknisrannsókn í janúar beindi grun að kransæðunum og hjartaþræðing í febrúar leiddi í ljós að tvær af þremur aðalkransæðunum voru algjörlega stíflaðar og sú þriðja byrjuð að stíflast verulega. Ég var nýorðinn fertugur. Líklegasta skýringin er ofsahár blóðþrýstingur sem uppgötvaðist fimm árum áður í vinnustaðamælingu sem ég ætlaði ekki einu sinni að þiggja en sló svo til þegar ég rakst á hjúkrunarfræðinginn í lok vinnudags. Mælingin sýndi 200 yfir 120. Hjúkrunarfræðingurinn fölnaði og hringdi strax í lækni til að leita ráða um hvað ætti að gera við þennan fársjúka mann. Þegar ég fletti þessum tölum upp á netinu núna sé ég að efri mörk 180 og/eða neðri mörk 120 flokkast sem krísa, „hypertensive crisis“. Læknarnir töldu að mögulega hefði þessi háþrýstingur verið að malla í mér síðan í æsku og eyðileggja æðarnar mínar óáreittur, en reykingar eru taldar hafa flýtt sjúkdómnum um tíu ár eða svo. Frá því að þetta uppgötvaðist var ég á lyfjum og í eftirliti en aldrei kom neitt óeðlilegt í ljós á hjartalínuritum fyrr en allt í einu þarna fimm árum síðar, að kransæðarnar reyndust stíflaðar. Mér var ekki hleypt út af spítalanum eftir þræðinguna sem leiddi þetta í ljós og viku síðar var gerð fimmföld hjáveituaðgerð fram hjá stíflunum. Í aðgerðinni kom í ljós að líkaminn hafði sjálfur bjargað mér fyrir horn með því að mynda á löngum tíma náttúrulegar hjáveitur, hárfínar æðar fram hjá stíflunum, en nú höfðu stóru kransæðarnar tekið upp á því að stíflast enn meira og því fór sem fór. Það var eftir þessa aðgerð sem ég upplifði að láta toga dren úr brjóstholinu á mér; í mínu tilviki var það gert í venjulegu sjúkraherbergi en ekki á gjörgæslu líkt og hjá Engilbjörtu eftir gollurhúsbólguna, sem hafði mögulega orðið henni til lífs.
Hjartaskurðlæknirinn sem framkvæmdi á mér hjáveituaðgerðina og bjargaði þannig lífi mínu lést úr krabbameini síðastliðið haust. Hann var bara 56 ára. Blessuð sé minning Gunnars Mýrdal.
Þetta hangir meira eða minna allt á bláþræði hjá okkur, kúlunum á gataspjaldinu, þó að við getum með hegðun okkar bæði fjölgað og fækkað götunum á því.
Mig grunar að ömmur mínar og afar hafi með lífshlaupi sínu gefið mér þessa hugmynd um gataspjaldið. Þrjú þeirra voru bindindisfólk á bæði áfengi og tóbak. Þau lifðu miklu skemur en meðalævilengd þess tíma sagði til um. Að meðaltali níu árum skemur, sem er ekkert smáræði. Sá eini sem reykti og neytti áfengis lifði hins vegar sex árum lengur en meðaltal þess tíma. Af þessari öldungis óvísindalegu rannsókn dró ég sem ungur maður bæði góðan lærdóm og slæman. Sá góði var að dauðinn hefur óskaplega lítið með sanngirni að gera; hann getur bankað upp á hjá hverjum sem er, hvenær sem er. Ég er sannfærður um að okkur sé nauðsynlegt að horfast í augu við þá staðreynd. Slæmi lærdómurinn var hins vegar ákveðið tómlæti gagnvart heilbrigðu líferni. Tilhneiging til að storka líkunum, líta svo á að ekkert skipti máli vegna þess að þetta fari hvort sem er bara einhvern veginn, og skynsamleg hegðun sé engin ávísun á góða uppskeru. Tilhneiging mín til að líta svona á málin er mögulega minn stærsti galli og réð til dæmis miklu um að ég var staðráðinn í að byrja að reykja sextán ára, sem var næstum búið að drepa mig og gæti enn átt eftir að gera það. Skaðinn af reykmettuðum aldarfjórðungi gæti átt eftir að koma fram, en því miður kemur fleira til. Eftir hjartaaðgerðina gufaði löngun mín í tóbak upp á undraverðan hátt, en núna fyrir nokkrum mánuðum, sex árum síðar, féll ég.
Á jólasamveru starfsmanna sagði kollegi minn okkur eftirminnilega og lærdómsríka sögu. Eitt sinn um jól fékk sex ára stúlka far til Þingeyrar hjá tengdaföður hans, sem var prestur, eftir messu á Ingjaldssandi í Önundarfirði. Stúlkan var að fara að heimsækja ömmu sína og afa og hafði með sér jólagjöf til þeirra. Færðin var þung og á leiðinni skrapp bíllinn til á veginum, fór út af og hentist niður bratta hlíð í átt til sjávar en nam loks staðar í miðri hlíðinni. Ökumaðurinn leit skelfdur aftur fyrir sig á stúlkuna í aftursætinu og sagði: „Nú vorum við aldeilis heppin.“ Hún sat þar hin rólegasta, hélt enn þéttingsfast um gjöfina til ömmu sinnar og afa og svaraði: „Já, þetta er nefnilega brothætt.“
Kollegi minn lauk frásögninni með þeim orðum að stundum gerast hlutir sem við höfum enga stjórn á. Þá er farsælast að hafa áhyggjur af því sem maður fær ráðið við, og gæta þess vel sem manni hefur verið falið.