7
DAGUR 1
DAGUR 1
Við hljótum að hafa verið komin á bráðamóttökuna í Fossvogi fyrir klukkan átta að morgni og vorum þar til hádegis eða þar um bil. Ég kann ekki að skýra frá þeim athugunum sem voru gerðar þar. Niðurstaðan var hins vegar sú að við ættum frekar heima á hjartadeildinni við Hringbraut.
Stóran hluta tímans sem við biðum eftir þeirri niðurstöðu vörðum við í rúmi frammi á gangi. Einhverjar prufur voru teknar, vafalaust til að útiloka líklegustu skýringar. Engilbjört bar sig illa, gat ekki komið sér vel fyrir, gat ekki hvílst og var með eitthvert óþol í öllum líkamanum.
Það er eðlilegt að fyrstu athuganir miðist við líklegustu orsakir. Annað væri órökrétt. Mögulega mætti samtímis prófa fyrir fleiri tilgátum, jafnvel einhverjum langsóttum; ég veit það ekki. En mér er sagt, og ég trúi því, að í þessu tilviki séu nær engar líkur á að það hefði skipt nokkru einasta máli að kvillinn hefði verið greindur fyrr, af því að lítil sem engin meðferð sé til við honum.
Núna vitum við að það sem amaði að Engilbjörtu var sjaldgæft. Sýking í hjarta. Hjartabólga. Myocarditis á ensku. Fremur fátíður kvilli og mjög sjaldgæft að afleiðingarnar séu eins snöggar og afgerandi og í þessu tilviki.
Ég elti sjúkrabílinn úr Fossvogi á hjartadeildina við Hringbraut en kom við á leiðinni og greip mér samloku. Stressið var nú ekki meira en það. Þetta hlaut að líða hjá eins og gollurhúsbólgan tveimur árum áður.
Engilbjörtu leið ekki vel í rúminu sínu á hjartadeildinni og ég man að ég kallaði áhyggjufullur eftir aðstoð. Mig minnir að blóðþrýstingurinn hafi fallið hratt í bylgjum eins og gerst hafði í fyrra skiptið.
Læknir ræddi síðan við okkur við rúmstokkinn og sagði að Engilbjört væri á leið í hjartaþræðingu. Þræðing er gerð til að kanna ástand kransæðanna sem flytja súrefni til hjartans. Ég spurði hvort þetta væri örugglega nauðsynlegt í ljósi þess að Engilbjört hefði fyrir aðeins tveimur árum farið í hjartaþræðingu í tengslum við gollurhúsbólguna og niðurstaðan verið sú að kransæðarnar væru fullkomlega heilbrigðar. Svarið var skýrt og eftirminnilegt: „Það væri krímínelt að ganga ekki úr skugga um þetta.“
Þetta var rétt eftir hádegi. Ég vissi að þræðingin myndi taka einhvern tíma en það kom mér mjög á óvart að fá ekki að hitta Engilbjörtu aftur fyrr en um sex klukkustundum síðar og þá á gjörgæslu. Ég man ekki vel hvað ég fékk að vita á meðan ég beið eftir að fá að hitta hana eftir þræðinguna. Í minningunni er eins og ég hafi heyrt það nánast óvart frá hjúkrunarfræðingi að það hefði liðið yfir hana í þræðingunni og hún því verið flutt rakleiðis á gjörgæslu.
Þegar ég fékk loks að heimsækja hana þangað, um sexleytið um kvöldið, var hún það illa haldin að ég var alveg miður mín eftir að hafa kvatt hana. Kári Freyr, 13 ára yngri sonur okkar, var einn heima og ekki um annað að ræða en að ég færi til hans og gæfi honum kvöldmat. Læknarnir töldu að Engilbjört myndi þrátt fyrir allt jafna sig með tímanum og við ákváðum að ég myndi líta við aftur síðar um kvöldið.
Guðni Þór, 19 ára eldri sonur okkar, var í skólaferðalagi í Brussel með Verzlunarskólanum. Ég sendi honum SMS af spítalanum um hálfsjöleytið: „Hæ hæ, mamma fékk aftur þetta sama og fyrir tveimur árum og þarf að vera aðeins á spítala. Þannig að það er ekki hægt að hringja í hana. En hún biður að heilsa!“
Á sama tíma til nánustu fjölskyldu: „Hæ hæ, vildi láta vita að Engilbjört fékk í nótt aftur þessa sýkingu í hjartað sem hún fékk fyrir tveimur árum og þarf að vera á spítala í nokkra daga. Þetta er ansi óþægilegt fyrir hana á meðan þetta gengur yfir og lítið hægt að gera til að flýta fyrir því, en hún berst í gegnum þetta og biður að heilsa öllum. En það verður sem sagt ekki hægt að ná í hana alveg á næstunni. Bestu kveðjur!“
Þegar ég settist svo í bílinn fyrir utan spítalann til að fara til Kára Freys brast ég í grát, svo illa leist mér á blikuna. Ég upplifði í fyrsta sinn að Engilbjört gæti verið í alvarlegri lífshættu. Eftir á að hyggja tók ég þarna út fyrstu sorgina yfir því að missa hana. Dauðinn gerði vart við sig í vitund minni og ég hugleiddi í fyrsta sinn að hún gæti dáið. Minningin úr bílnum er skýrari en af því að hitta hana á gjörgæslunni. Mér finnst það dálítið leiðinlegt núna af því að það var í síðasta skipti sem ég hitti hana vakandi og viðræðuhæfa. Mig langar svo mikið að muna þann fund betur en ég veit líka að það væri ekki góð minning. Kannski er það bara eins gott.
Ég sótti Kára heim, fór með honum í kvöldmat á Hard Rock og bar mig vel. Hann fór síðan í heimsókn til vinar síns en ég staldraði aðeins við heima og fór svo aftur á spítalann rúmlega níu.
Þegar ég var rétt ókominn á spítalann var hringt í mig þaðan. „Eins og við ræddum vorum við að vonast til að ástand hennar myndi batna. Það er því miður ekki að gerast. Eiginlega þvert á móti. Það er líklega best að þú komir.“ – Ég svaraði að ég væri einmitt að leggja bílnum fyrir utan.
Læknarnir útskýrðu fyrir mér að virkni hjartans væri orðin svo lítil að nauðsynlegt væri að tengja Engilbjörtu við svokallaða ECMO-vél sem sæi um að setja súrefni í blóðið og tæki því að hluta til við hlutverki hjartans og lungnanna. Þetta væri nokkuð mikið inngrip og aðgerðin myndi taka töluverðan tíma.
Hugur minn fór rakleiðis til Kára Freys sem var annað hvort ennþá hjá vini sínum eða einn heima. Átti ég að láta hann koma? Klukkan var um tíu um kvöld og mér var sagt að aðgerðin gæti dregist fram yfir miðnætti. Það myndi auðvitað hræða hann að þurfa að koma. Ég hafði gert fremur lítið úr veikindunum, enda voru þau eiginlega fyrst þarna að verða grafalvarleg í mínum huga með þessari aðgerð sem var greinilega ekkert gamanmál. Talið hafði verið langlíklegast að Engilbjört myndi jafna sig á þessu alveg eins og síðast. Núna var allt í einu þörf á mikilli aðgerð og hún var á þeim tíma sólarhrings að mjög hæpið var að leyna henni fyrir Kára. Sá möguleiki var fyrir hendi að aðgerðin færi illa á meðan hann væri einn heima um nótt. Ég spurði lækninn ráða. Væri ég að hræða Kára að óþörfu með því að láta sækja hann? Nei, læknirinn taldi skynsamlegt að fá hann á staðinn og sagðist myndu gera það sjálfur í mínum sporum.
Þannig að ég hringdi í Kára, sagði honum frá aðgerðinni og að hann skyldi fylgjast með leigubíl sem kæmi fljótlega. Ég myndi borga hann þegar þeir kæmu. Hringdi svo á bílinn.
Ég kvaddi Engilbjörtu áður en hún fór í aðgerðina. Henni leið ekki vel og það var á mörkunum að hún væri til viðtals en ég held þó að ég hafi náð að skila til hennar góðum baráttukveðjum frá öllum.
Leigubíllinn kom með Kára og við biðum saman í litlu herbergi fyrir aðstandendur eftir því að aðgerðin kláraðist. Kári sofnaði á endanum. Loks kom læknir til okkar með góðar fréttir og sagði að aðgerðin hefði tekist vel. Engilbjört hefði verið vakandi meðan á henni stóð og sýnilega byrjað að líða mun betur þegar ECMO-vélin byrjaði að setja súrefni í blóðið. Fljótlega eftir það hefði hins vegar komið að henni ónotatilfinning, sem væri ekki óeðlilegt, og af þeim sökum hefði hún verið svæfð. Ég sendi nánustu fjölskyldu strax þessi skilaboð af spítalanum, klukkan 00:45 eftir miðnætti:
Hæ – ég held að það sé rétt að upplýsa ykkur um stöðuna. Hún var í kvöld ekki að lagast eins og vonast hafði verið til þannig að það var ákveðið að tengja við hana græjur sem hjálpa henni að fá súrefnismettað blóð, til þess að minnka álagið á hjartanu og gefa því kost á að hvílast og jafna sig.
Þessari tengingu var að ljúka rétt í þessu. Aðgerðin gekk vel og Engilbjört var vakandi meðan hún fór fram og leið strax mun betur. Núna sefur hún og hvílist.
Bataferlið verður alla vega nokkrir dagar. Að vera tengdur við svona vél telst alltaf vera alvarleg staða samkvæmt skilgreiningu, en við skulum ekkert mála skrattann á vegginn og það er fullt af jákvæðum fréttum í þessu, ekki síst þær að það eru engar vísbendingar um skemmdir á hjartanu.
Við Kári vorum hérna saman á spítalanum í kvöld meðan þessi tenging var gerð enda vildi ég ekki hafa hann einan heima. Hann var alveg rólegur og steinsefur núna! Guðni Þór er í skólaferðalagi í Brussel og ég er ekkert að trufla hann með þessum smáatriðum, lét bara duga að láta hann vita að hún hefði þurft að leggjast inn til að jafna sig á svipuðu veseni og hún fékk þarna fyrir tveimur árum.
Ég skilaði kveðju til hennar frá öllum fyrr í kvöld, áður en hún fór inn í tenginguna, þannig að hún var búin að fá hlýja strauma sem gögnuðust vel! Ég læt heyra aftur í mér á morgun með nýjar fréttir!
Bestu kveðjur, ÓT
Þannig lauk þessum fyrsta degi sem hófst með því að Engilbjört vakti mig eldsnemma morguns í sófanum í stofunni heima og sagðist halda að hún væri komin með þetta sama og síðast.