37
ÉG MAN
ÉG MAN
Ég vildi að ég hefði betra minni og ég óttast mjög að gleyma enn fleiru.
Ég man þegar hún lagði bílnum fyrir framan nýju íbúðina okkar í Sörlaskjóli og sagði mér að hún væri ólétt af Guðna og um mig fór sælutilfinning sem ég hafði aldrei fundið áður.
Ég man hvað ég áleit mig heppinn að mega kyssa þessa fallegu konu hvenær sem ég vildi.
Ég man hvað hún hafði góða dómgreind í langflestum málum.
Ég man hvað hún sagði oft: „Mér finnst ég ekki hafa stoppað í allan dag.“ Orð sem ég skil óneitanlega betur í dag en þá.
Ég man hvernig hún kallaði alltaf „hæ“ þegar hún kom inn úr dyrunum.
Ég man hvað hún hló alltaf innilega bæði að eigin fyndni og annarra.
Ég man að við lágum uppi í rúmi nýbyrjuð saman og hún var með handlegginn yfir bringuna á mér og sagði: „Ég finn hjartað,“ en mér heyrðist hún segja: „Það er kominn tími á þetta hjarta,“ – og hvað okkur fannst hryllilega fyndið að ég hefði haldið að hún væri svona voðalega væmin.
Ég man að hún vildi helst ekki láta sjá sig neins staðar nema hún væri vel til höfð.
Ég man þegar ég vaknaði lyfjaður eftir hjáveituaðgerðina og hún sat við rúmstokkinn minn á sjúkrahúsinu; fyrsta hugsun mín var hvað hún ætti bágt að þurfa að hanga þarna yfir mér og ég stundi upp úr mókinu: „Aumingja Engilbjört.“ Hún gerði oft grín að því síðar.
Ég man þegar þrýst var á magann á henni á sjúkrahúsinu til að koma fæðingu Kára af stað, og hvað mér varð skömmu síðar óglatt þegar ég sá nálina fara inn út af mænudeyfingunni.
Ég man hvað hún var ánægð og spennt að vera byrjuð í nýrri vinnu skömmu fyrir veikindin.
Ég man hvað það var dæmigert fyrir hana að standa á rétti sínum og neita að viðurkenna hraðakstur þegar hún var tekin, sem varð til þess að hún fékk nokkrum vikum síðar bréf þar sem hún var ávörpuð „ákærða“ og boðuð í fyrirtöku – og hvað við göntuðumst mikið í henni upp frá því með því að kalla hana sýknt og heilagt „ákærðu“.
Ég man að hún hafði í þessum sama anda uppi stór orð tæpum tuttugu árum áður, um að vísa umsvifalaust á dyr hverjum þeim innheimtumanni frá RÚV sem myndi voga sér að banka upp á heima hjá okkur, en þegar til kastanna kom bönkuðu tvær sakleysislegar ungar stúlkur hjá okkur í þessum tilgangi og í stað þess að standa við stóru orðin viðurkenndi hún strax auðmjúklega að við ættum vissulega sjónvarp.
Ég man að hún gat helst ekki sofnað án þess að lesa aðeins í bók, hversu þreytt sem hún var.
Ég man grínsvipinn hennar þegar hún setti stút á munninn.
Ég man hvernig hún varð alltaf dálítið vandræðaleg og spurði „hvað?!“ þegar hún tók eftir að ég hefði horft lengi á hana.
Ég man hvernig ég sat á skrifstofunni hans pabba heima á Melstað og talaði við hana í síma þegar hún hringdi eftir að ég hafði skrifað henni bréf og boðið henni að hringja ef hún hefði áhuga á að kynnast mér betur.
Ég man þegar ég tók utan um hana í stofunni heima í kjallaraíbúðinni okkar í Sörlaskjóli á gamlárskvöld árið 2000 og spurði hana hvort hún vildi giftast mér.
Ég man hvað hún fílaði vel aggressíf lög og texta og söng með þeim hástöfum í partýjum. „Creep“ með Radiohead, „Hey!“ með Pixies, „You Oughta Know“ með Alanis, „Killing In The Name“ með Rage Against The Machine. Þar fékk gæðablóðið útrás fyrir töffarann.
Ég man að hún notaði orðið „hallærislegt“ yfir flest sem henni fannst rugl.
Ég man hvað hún stóð með sínu fólki í gegnum þykkt og þunnt.
Ég man hvað þeir áttu erfitt uppdráttar gagnvart henni sem lentu á svarta listanum, en hann var mjög stuttur.
Ég man hvað hún var dugleg að heimsækja foreldra sína í Sólheimana.
Ég man búkhljóðin í námsráðgjafanum í Freiburg sem við gerðum endalaust grín að, og lauflétta labbitúrnum sem einhver þýskur furðufugl bauð okkur í og reyndist vera tíu kílómetrar.
Ég man þegar hún kom heim úr vinnunni og heilsaði mér stuttlega þar sem ég sat í sófanum í stofunni áður en hún rauk fram í eldhús, án þess að taka eftir reiðhjólinu sem stóð á miðju stofugólfinu, sem var afmælisgjöfin hennar.
Ég man þegar kaupmaður í Kaíró bauð mér fimm kameldýr fyrir hana.
Ég man þegar ég sturlaðist af ameríska landabrugginu í Jeddah og hélt að hún væri hrifin af fimmtugum Indverja sem vann hjá Atlanta.
Ég man að hún átti fimmtán liti af naglalakki sem mér fannst allir nokkurn veginn eins. Og sama með alla svörtu skóna.
Ég man hvað hún var dugleg að sjá um allt sem viðkom skólagöngu strákanna.
Ég man hvað henni þótti ég keyra glannalega og hvernig hún reyndi iðulega að bremsa með því að negla niður fæti úr farþegasætinu.
Ég man hvað það var yfirþyrmandi gleðilegt að ganga með henni inn í salinn í brúðkaupsveislunni okkar.
Ég man einkabrandarana okkar sem eru of flóknir til að útskýra þá.
Ég man ítölsku kjötbollurnar sem mér fannst svo góðar en kann því miður ekki að búa til.