32
HELGIATHAFNIR
HELGIATHAFNIR
Ég drep á Mözdunni fyrir utan heimili okkar. Rúðuþurrkurnar sem voru í miðju kafi stöðvast við hálfnað verk. Engilbjört kunni aldrei við það og bað mig alltaf að setja þær niður þegar þetta gerðist. Ég get næstum því heyrt hana segja þetta núna. Ég svissa aftur á bílnum og leyfi þurrkunum að setjast á sinn stað áður en ég svissa af og stíg út. Örlítil helgiathöfn. Stutt bæn. Og hún hjálpar mér á sama hátt og ég býst við að bænir geti gert. Verði þinn vilji, ástin mín.
Þó hlýði ég henni ekki í einu og öllu. Hún var til að mynda mjög efins um þá hugmynd mína að opna á milli stofunnar og sólstofunnar til að búa til borðstofu. Samt læt ég nú verða af því. Ég er viss um að hún hefði verið ánægð með útkomuna – og ég hefði seint hætt að stríða henni á því að ég hefði haft rétt fyrir mér.
Hún setti aðra framkvæmd framar í forgangsröðina og ég gat ekki mótmælt henni með gildum rökum þó að ég hefði engan áhuga á henni. Endurnýjun á sextíu ára gömlu baðherberginu var hálfnuð þegar Engilbjört veiktist. Ég fæ símtal frá verslun um að skápur og blöndunartæki, sem við höfðum valið saman, væru nú loksins komin. Þegar ég legg af stað til að sækja þetta er það eins og hvert annað verkefni. En um leið og ég geng inn í verslunina þyrmir yfir mig. Þetta var okkar verkefni. Okkar sameiginlega verkefni. Við höfðum valið þessar vörur saman til að gera heimilið okkar fallegra. Ég þarf að ganga aðeins um verslunina til að jafna mig áður en ég tek við vörunum.
Ég geng um Vesturbæinn og geri mér iðulega far um að ganga fram hjá öllum húsunum þar sem við bjuggum: við Sörlaskjól, Melhaga og Fornhaga. Við Sörlaskjólið fer ég niður í fjöruna beint fyrir framan fyrstu íbúðina okkar og sest þar á steininn minn. Sit einn við sjóinn eins og mamma hafði gert sem lítil stelpa í Vestmannaeyjum þegar hún þurfti að gera einhverja hluti upp. Þarna rétt fyrir aftan mig sátum við Engilbjört saman úti í bíl fyrir tuttugu árum og hún sagði mér að hún væri ófrísk af Guðna Þór. Þarna rétt fyrir aftan mig tók ég utan um hana í stofunni á gamlárskvöld árið 2000 og spurði hana hvort hún vildi giftast mér.
Fötin hennar eru enn óhreyfð ári eftir að hún dó; í stóra fataskápnum frammi á palli fyrir framan svefnherbergið, í kommóðunni, í forstofuhenginu og á fatastandinum við hliðina á rúminu okkar.
Síðla kvölds er ég gripinn þörf til að rölta einsamall á Dillon-bar; önnur pílagrímsferð. Við Engilbjört fórum varla svo út á lífið að við enduðum ekki á Dillon og dönsuðum við klassískt lagaval Andreu Jóns. Nú sit ég þar við barinn í um klukkustund með viskýglas og fylgist með fólkinu skemmta sér eins og við gerðum. Eftir lokun á Dillon héldum við stundum yfir á Barböru til að halda áfram að dansa. Í lok kvölds deildum við nánast alltaf um hvort við ættum að koma við á Hlölla á heimleiðinni; ég var alltaf harður á því en hún tók það aldrei í mál. Þetta voru nánast einu deilur okkar og mér var næstum farið að þykja vænt um þær.
Ég deili öðru hverju myndum af Engilbjörtu á Facebook og hjörtun sem fólk setur við þær hjálpa mér; ég upplifi nærandi samkennd.
Fyrir jólin höfðum við ákveðið að gjöfin okkar hvort til annars yrði málverk á tóman stofuvegginn en okkur hafði ekki tekist að finna það. Nú fer ég á stúfana og finn verk sem talar strax til mín. Þegar ég heyri að listamaðurinn, Jakob Veigar Sigurðsson, hafi gert algjör umskipti á lífi sínu, hætt sem verkfræðingur til að snúa sér að myndlist, tengi ég enn betur. Algjör umskipti. Nú finnst mér sem ekkert annað verk hefði nokkurn tímann getað komið til greina. Það fer upp. Aðrir veggir í stofunni eru þó enn frekar tómlegir. Á sýningu sé ég ljósmynd af vegi í íslenskum firði að vetrarlagi. Eitthvað við myndina snertir mig. Þegar ég kemst að því að hún er tekin á leiðinni til Súðavíkur, þar sem móðir Engilbjartar var fædd og uppalin, er ekki lengur spurning um að hún fer upp. Á annarri sýningu sé ég lítið verk sem er sniðugt tilbrigði við skilaboðin sem birtast alltaf á ensku í lok framhaldsþátta, „to be continued“ eða „framhald“. Á verkinu stendur: „To Feel Continued.“ Það fer líka upp.
Ég finn netfangið hjá Dirty Records í Gautaborg og panta árituðu ljósmyndina af Ninu Persson, söngkonu The Cardigans, sem sá um undirspilið í Vökupartýjunum vorið 1995 þegar við Engilbjört vorum að byrja saman. Eftir að myndin er komin upp á vegg frétti ég frá kunningja mínum að þetta átrúnaðargoð mitt sé væntanlegt til Húsavíkur með eiginmanni sínum sem ætlar að sjá þar um sérkennilegan tónlistargjörning með jógaívafi. Ég bruna norður og leggst á jógadínu örfáa metra frá Ninu Persson. Við lok viðburðarins geri ég mér far um að nálgast hana, stend loks við hliðina á henni og dauðlangar að kynna mig en þori það ekki, auk þess sem það hefði verið á skjön við helgi þessa friðsæla slökunar- og íhugunargjörnings. Hlusta þess í stað á hana ræða við manninn sinn um hvort þau eigi fyrst að pakka niður í töskurnar og fara síðan í sjóböðin eða öfugt. Eftir á að hyggja finnst mér ég hafa komist miklu nær henni en með því að trufla og kynna mig.
Ég vel nokkrar fjölskyldumyndir úr safninu, læt prenta þær og innramma og hengi þær á áberandi stað heima. Í bandarískri bók um sorgarviðbrögð les ég um fjölmörg dæmi þess að fólk hafi fjarlægt allar myndir af látnum ástvini. Ég er sammála höfundinum um að það séu ekki gagnleg viðbrögð.
Þórdís Kolbrún vinkona mín gefur mér í jólagjöf mynd sem Vera Líndal vinkona hennar málaði af okkur fjölskyldunni. Dýrgripur sem fer rakleitt upp á vegg. Pétur bróðir gefur mér innrammaða mynd af Engilbjörtu sem fer líka á góðan stað. Ég vel tæplega þrjátíu myndir sem ég hef tekið á tónleikum í gegnum tíðina, læt prenta þær á litlar plötur og hengi upp í eldhúsinu. Við Engilbjört fórum saman á þá flesta: Coldplay í Laugardalshöll, Barcelona og Gautaborg, U2 í Nice og London, Pixies í Laugardalshöll, Valdimar og Prins Póló á Húrra, Ásgeir Trausti og Moses Hightower í Háskólabíói, Sigur Rós í Hörpu, Roger Waters í Egilshöll, Duran Duran í London, Jónas Sig á Rauðhettu og úlfinum á Skólavörðustíg. Þarna er líka mynd af Highasakite-tónleikunum sem við Pétur fórum á í Gautaborg.
Lilja systir færir okkur stóra minningarbók um Engilbjörtu sem hún föndraði með ótal ljósmyndum og fallegu handgerðu skrauti. Mér verður hugsað til myndbandsins um mömmu sem þau Eysteinn bróðir eyddu ómældum tíma í að búa til. Ég kem bókinni fyrir í hillu í stofunni og set þar líka tvær brúðkaupsmyndir sem ég hef tekið úr albúmi og sett í ramma.
Ég er kominn með lítil altari um alla íbúð.
Ég hef alltaf haft lélegt minni. Svo lélegt að vinir mínir kalla mig stundum Ólzheimer í kolsvörtum útúrsnúningi á heiti hins hræðilega sjúkdóms. Lífið er að stórum hluta minningar. Lélegt minni styttir því lífið í einhverjum skilningi. Mér finnst dapurlegt að muna ekki meira en ég geri. Ég man eins og leiftur ýmis augnablik sem hafa einhverra hluta vegna haft áhrif á mig en á erfitt með að rifja upp hina rólegu framvindu hversdagsins, ólíkt mörgum sem virðast geta endurspilað í huganum heilu tímabilin úr lífi sínu. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að ég hef alltaf verið duglegur að taka myndir í tíma og ótíma og halda þokkalegu skipulagi á þeim. Þær eru mín aðalheimild. Haldreipi.
Nú sest ég við tölvuna og fer skipulega í gegnum allt myndasafnið. Markmiðið er að búa til minningarvef um Engilbjörtu með úrvali mynda. Ég byrja á að velja góðar myndir sem gætu komið til greina á slíkan vef en kemst fljótt að þeirri niðurstöðu að skynsamlegra sé að nota smærri möskva í fyrstu atrennu. Setja einfaldlega allar myndir af Engilbjörtu til hliðar á einn stað og velja síðan úr þeim seinna. Sleppa engum í þessari fyrstu umferð, ekki einu sinni þó að hún sé bara í bakgrunni eða jafnvel ekki í fókus. Huglægt mat á þessu stigi býður heim ósamræmi og óreiðu. Svona fer ég í gegnum allt safnið á nokkrum dögum og finn 4.905 myndir af Engilbjörtu. Úr þessu stóra mengi vel ég í næstu umferð um 800 myndir sem mér finnst eiga erindi á minningarvefinn. Í fyrstu hafði ég séð fyrir mér að þær yrðu kannski í kringum hundrað en hvers vegna að sleppa góðri mynd fyrst ég er á annað borð að þessu? Því næst laga ég þær myndir sem þarf að laga; klippi af jöðrunum, hækka birtustigið og svo framvegis. Þá er það tímafrekasta verkefnið, sem er að breyta skráarheiti allra myndanna í ártal, mánuð og dag svo að þær raðist sjálfkrafa í rétta tímaröð. Annars yrði nánast óvinnandi vegur að gera það handvirkt með því að draga þær á sinn stað á vefnum. Samhliða þessu velti ég fyrir mér eftir hvaða skipulagi sé best að flokka þær til að vefurinn hafi sem mest notagildi. Ég vil að fjölskylda og vinir geti auðveldlega fundið myndir af sjálfum sér með Engilbjörtu. Niðurstaðan er átta flokkar eftir fólki: Engilbjört ein, með Guðna, með Kára, með mér, með foreldrum og systkinum, með tengdafjölskyldu, með saumaklúbbi, og með öðrum nánum vinum. Til viðbótar eru tveir aðrir yfirflokkar: „tímabil“ og „tilefni“, báðir með nokkrum undirflokkum. Ég staldra við spurninguna um hvort ein og sama myndin geti verið í tveimur eða fleiri flokkum og ákveð að það sé bæði einfaldast og notendavænst. Mynd af Engilbjörtu með drengjunum í sumarfríi fer þannig í fjóra flokka: „Guðna“, „Kára“, „ferðalög“ og viðeigandi tímaflokk.
Þetta verkefni verður nánast að þráhyggju sem er sumpart dæmigerð fyrir mig en sumpart ekki. Ég hef almennt ekki mikla skipulagsáráttu; skrifborðið mitt er til dæmis í mikilli óreiðu og ég flokka tölvupóstinn minn ekki í möppur. En ég get setið lengi við að koma smám saman skipulagi á sumt og finnst það róandi. Ekki síst tónlistarsafnið mitt og ljósmyndir. Kannski af því að þetta eru tvær af sterkustu tengingum mínum við fortíðina; myndirnar eru heimildir um það sem ég man ekki og tónlist er með svipuðum hætti oft eina ástæða þess að ég man tiltekinn atburð. Nú nýt ég sum sé góðs af því að hafa fyrir um tíu árum tekið svona skipulagskast og varið mörgum kvöldum í að skanna öll myndaalbúmin okkar inn í tölvu. Ábyggilega koma hér líka við sögu einhver skráningar-gen frá móður minni, bókasafnsfræðingnum. Hin tilbreytingarlausa iðja kallar fram í hugann samlíkingu við mölina í japönsku zen-görðunum sem er mótuð í öldur og gárur af mikilli nákvæmni og á víst að hjálpa við íhugun. Nærtækari samlíking er einfaldlega að prjóna eða púsla. Hæfilega lítil andleg áreynsla. Endurtekning. Markviss árangur í smáum skrefum yfir langan tíma. Hugarró.
Ég kalla eftir myndum af Engilbjörtu frá öðrum og fæ margar; þykir óskaplega vænt um þessar sendingar og í þeim koma margir dýrgripir upp úr kafinu sem ég hef aldrei áður séð. Í kössum eru líka margar myndir úr safni fjölskyldu Engilbjartar sem ekki höfðu verið skannaðar inn. Svona bætast við um 200 myndir á vefinn. Laga þær til, breyti skráarheitunum svo að þær raðist rétt og set þær í viðeigandi flokk. Afla upplýsinga um ártöl ef þau fylgja ekki.
Á netinu finn ég forrit sem gera viðvaningum eins og mér kleift að hanna vef. Ég verð mér úti um lénið engilbjort.is og tengi það við vefinn. Set inn myndirnar, sem raðast nú sjálfkrafa í snyrtilega tímaröð. Flokka þær og set stuttan myndatexta við flestar. Bæti líka á vefinn minningargreinunum úr Morgunblaðinu og kemst að raun um að það er dýpri upplifun að skrifa þær inn frá orði til orðs en að lesa þær í dagblaði. Set líka inn fáein myndbönd og sé fyrir mér að fjölga þeim kannski seinna.
Ég hef áhyggjur af því að hæpið sé að birta opinberlega myndir af fjölda fólks án samþykkis. Leita ráða hjá vinum með góða dómgreind og úr verður að læsa síðunni með lykilorði fyrstu vikurnar. Allstór hópur nánustu fjölskyldu og vina fær aðgang og ég bið þau að láta mig vita ef þau vilji láta fjarlægja einhverjar myndir áður en síðan verði opin öllum. Engin ósk berst um slíkt. Set læstan vef í loftið á afmælisdegi Engilbjartar, rúmu ári eftir að hún dó, og opna hann öllum um mánuði síðar.
Að halda minningu á lofti. Það hefur hjálpað mér. Smíði minningarvefsins gaf mér mikið. Hugarró, tilgang og fyllingu. Mögulega eru þessi skrif til marks um að það hafi ekki verið nóg. Líklega þurfti ég annað svipað verkefni, eitthvert tímafrekt markmið til að nostra við og hlaða smám saman upp eins og vörðu. Þetta er eiginlega bara að renna upp fyrir mér núna. Og nú þegar ég sé fyrir endann á verkefninu kvíði ég lokum þess. Ég geri mér engar grillur um að „skrifa mig frá sorginni“ því að hún er ekki að fara neitt. Verkefnið snýst um að leyfa henni að setjast á sinn stað, og byggja um leið upp viðnám til að geta lifað með henni þegar hún tekur sig til og gerir sig breiða, sem mig grunar að sé óhjákvæmilegt.