24
MEYJARMISSIR
MEYJARMISSIR
Vináttu Engilbjartar við Hildi og Ingu mátti rekja aftur til þess þegar hún bað Hildi að leiða sig inn í kennslustofuna fyrsta skóladaginn í sex ára bekk. Þær urðu strax bestu vinkonur. Stundum þegar þær gengu saman um Langholtshverfið höfðu þær bil á milli sín; þá var Jesús með þeim og gekk á milli þeirra. Þær kynntust síðan Ingu nokkrum árum síðar og þó að vinahópurinn ætti enn eftir að stækka voru þær þrjár alltaf þríeyki.
Það var ómetanlegt að Hildur og Inga skyldu nú vera komnar út til okkar og búnar að hitta Engilbjörtu. Þær gistu nálægt sjúkrahúsinu og komu til mín á gistiheimilið klukkan níu morguninn eftir fyrstu heimsóknina, enda hafði okkur verið sagt að við gætum komið um það leyti. Nú hringdi hins vegar hjúkrunarfræðingur í mig og bað okkur um að fresta komu okkar til hálfellefu af því að hlúa þyrfti að öðrum sjúklingi í sama herbergi. Ég ákvað því að sýna Hildi og Ingu grasagarðinn með sínum framandi og fjölbreyttu trjám, ævintýraheimum alls konar loftslags og eitt þúsund tegundum af orkídeum.
Klukkan var farin að nálgast ellefu þegar við komum á gjörgæsluna. Þá var okkur enn sagt að bíða. Hálftíma síðar fengum við loks að fara inn. Engilbjört var sofandi. Hún hafði víst ekkert vaknað allan morguninn sagði starfsfólkið og fannst það fremur óvenjulegt. Ekki vottaði þó fyrir neinum óróleika hjá þeim vegna þessa; þau sinntu sínum verkum eins og venjulega. Vissulega hafði Engilbjört verið misjafnlega mikið vakandi undanfarna daga og ég vissi að sjúkraþjálfunin útheimti mikla orku. Hún hafði verið látin sitja á rúmstokknum síðustu tvo daga og mér hafði verið sagt að sú æfing væri líkt og maraþonhlaup fyrir hana. Ég hugsaði með mér að vonandi væri hún bara þreytt eftir þessi átök. Við Hildur og Inga settumst hjá henni þar sem hún svaf, töluðum til hennar en fengum engin viðbrögð.
Þegar við höfðum setið hjá henni drjúga stund kom læknir inn á gjörgæsluna, að því er virtist í reglubundið eftirlit. Ég hafði hitt hann oft áður og meðal annars átt við hann erfið samtöl fyrstu dagana eftir komuna til Gautaborgar, þegar tvísýnustu aðgerðirnar voru gerðar til að bjarga lífi Engilbjartar. Ég sá strax að honum stóð ekki á sama þegar hann heyrði að hún væri búin að sofa allan morguninn. Hann spurði mig hvort ég hefði náð einhverju sambandi við hana. Ég neitaði því. Smám saman sótti að mér uggur og andrúmsloftið á gjörgæslunni varð eilítið þyngra. Við Hildur og Inga stigum til hliðar á meðan læknirinn skoðaði Engilbjörtu nánar. Við þrjú stóðum nokkuð frá rúminu hennar en þegar ég gaut augunum áhyggjufullur til læknisins sá ég hvernig hann freistaði þess með látlausri en afgerandi snertingu að kalla fram viðbrögð hjá henni. Þegar Engilbjört sýndi lítil viðbrögð sló eldingu niður í mig. Þetta gat ekki verið eðlilegt, það var útilokað í mínum huga. Það hlaut að vera eitthvað mikið að. Ég lét þó á engu bera.
Læknirinn nefndi að gildin fyrir sýkingu í blóði væru nokkuð há, sem gæti orsakað þreytu. Þetta gaf mér veika von en meginniðurstaða læknisins var að rétt væri að senda Engilbjörtu í myndatöku. Strax var hafist handa við að koma því í kring og undirbúa flutning út af gjörgæslunni, sem var töluvert fyrirtæki eins og þarna var ástatt, með Engilbjörtu tengda við öndunarvél, hjarta- og lungnavél, nýrnavél, sprautugjafa og mælitæki. Við fylgdumst nokkuð óróleg með hvernig þessu var öllu komið fyrir með viðeigandi hætti og horfðum loks á eftir henni út.
Okkur var sagt að töluverð bið gæti orðið eftir niðurstöðum úr myndatökunni. Best væri fyrir okkur að bíða annars staðar og síðan yrði hringt í okkur. Við fórum því aftur í grasagarðinn, á kaffihúsið sem hafði verið lokað þegar við vorum þar fyrr um morguninn. Ég held að við höfum ákveðið innra með okkur að láta ekki bera á áhyggjum okkar. Þrátt fyrir allt vissum við ekkert hvað var að gerast. Engilbjört hafði verið skýr og vel vakandi kvöldið áður. Hún var á batavegi og hafði sýnt miklar framfarir að undanförnu. Hjúkrunarfræðingarnir höfðu verið pollrólegir þegar við komum þennan morgun. Engin merki voru um neitt óeðlilegt, fyrir utan það að hún svaf – og viðbragðsleysið sem ég hafði tekið eftir en Hildur og Inga ekki. Áhyggjurnar þessa daga snerust allar um komandi vikur og mánuði; hvort henni tækist að ná nægum styrk til að verða hjartaþegi og hvernig sú aðgerð myndi ganga þegar þar að kæmi. Aldrei var lengur minnst á yfirvofandi lífshættu frá degi til dags. Þetta samhengi hlutanna gerði að verkum að það virtist einhvern veginn ekki tímabært að örvænta núna, þar sem við sátum þrjú saman á kaffihúsinu í grasagarðinum. Við reyndum því að setja áhyggjur okkar til hliðar og halda okkar striki með léttu hjali þó að innst inni teldi ég meiri líkur á því en minni að eitthvað mjög alvarlegt hefði gerst.
Eftir kaffisopann fórum við aftur á gistiheimilið mitt, komum okkur fyrir í setustofunni og biðum eftir símtalinu. Töluverður tími leið. Og hann leið hægt. Hvort sem það var nú á endanum ég sem hringdi í hjúkrunarfræðinginn eða hún í mig þá var ljóst af samtali okkar að niðurstaðan var ekki góð. Mögulega greindi ég það á rödd hennar, mögulega gaf hún það varlega í skyn berum orðum.
Skrefin okkar yfir á sjúkrahúsið voru þung. Þegar við komum inn til Engilbjartar var ekki lengur um að villast; læknirinn og hjúkrunarfólkið tóku á móti okkur alvarleg í bragði og báðu okkur að koma með sér fram og setjast inn í hliðarherbergi. Við Hildur og Inga settumst þar saman í sófa og læknirinn á móti okkur.
Ég var stjarfur af kvíða yfir því sem læknirinn myndi segja en taldi samt allar líkur á að þessu væri lokið. Við höfðum sloppið með skrekkinn hvað eftir annað. Sigrast naumlega á hverri lífshættunni á fætur annarri. Við höfðum fyrir langa löngu ratað inn á hættulegasta svæðið á kúluspjaldinu, svæði sem er alsett götum, en í heilar fimm vikur hafði okkur tekist að sneiða hjá þeim öllum með undraverðri heppni og góðri hjálp. Nú vorum við búin með kraftaverkin. Þessi möguleiki hafði legið í loftinu og nú þegar hann gerði vart við sig var ég tilbúinn að gefast upp. Ég hafði misst Engilbjörtu í huganum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Í bílnum fyrir utan Landspítalann fyrsta kvöldið. Einn heima í örvæntingu á öðrum degi. Með Guðna og Kára fyrstu dagana í Gautaborg þegar lífshættulega aðgerðin var gerð. Bæði þá og oftar hafði ég sett mig í þessi spor: „Ég er að missa hana.“ Ég hafði nánast lifað matröðina. Nú var hún orðin að veruleika.
Læknirinn hóf mál sitt varfærnislega: „Ég er hræddur um að ég hafi ekki góðar fréttir að færa.“
„Ég veit,“ hugsaði ég stjarfur.
„Myndatakan sýnir að það hefur orðið mikil blæðing í heila,“ hélt hann áfram og útskýrði síðan rólega fyrir okkur hvað þetta þýddi. Engin leið væri að bæta úr þeim skaða sem blæðingin hefði valdið. Við þessar aðstæður væru ekki forsendur til að halda meðferðinni áfram. Nú væri það undir okkur komið að segja til um hvenær henni myndi ljúka. Ekkert lægi á, við skyldum taka þann tíma sem við þyrftum, en þetta væri kveðjustundin.
Við Inga og Hildur tókum hvert utan um annað. Þvílík gæfa að hafa þær við hlið mér á þessari stund. Við gengum saman út úr hliðarherberginu og aftur inn til Engilbjartar, settumst hjá henni þar sem hún svaf líkt og áður. Ég vissi ekki hvernig ég átti að láta undir óbærilegum þrýstingi þess verkefnis að taka ákvörðun um endanlegan aðskilnað okkar. Eftir fáeinar mínútur sagði ég: „Við erum ekkert að fara að ákveða þetta hér og nú, komum aftur inn,“ og við fórum þrjú saman aftur inn í hliðarherbergið, biðstofu aðstandenda.
Drengirnir okkar, Guðni og Kári, voru mér efst í huga. Hvar voru þeir núna? Hver myndi færa þeim þessar hræðilegu fréttir? Ég þurfti að komast til þeirra tafarlaust. Ég fór á netið í símanum og keypti mér flug til Íslands í gegnum Osló morguninn eftir. Aðalatriðið í mínum huga var að komast heim til að halda utan um drengina.
Ég hringdi í pabba. Hann sagðist myndu hafa uppi á Guðna en Lilja systir tæki á móti Kára þegar hann kæmi heim úr skólanum. Næst hringdi ég í Ásu, elstu systur Engilbjartar.
Loks afréðum við Inga og Hildur að fara aftur inn til Engilbjartar. Í anddyrinu frammi, við stóru dyrnar inn á gjörgæsluganginn, hittum við fyrir tilviljun íslenskan lækni sem starfar á Sahlgrenska. Hann heilsaði okkur þar sem við biðum niðurlút eftir að dyrnar yrðu opnaðar fyrir okkur. Hann kannaðist vel við veikindi Engilbjartar, hafði fylgst með framförum hennar og spurði hvernig gengi. Ég svaraði að það gengi því miður ekki vel því nú væri komið að kveðjustundinni. Hann var sýnilega hissa og sagðist hafa talið að hún væri á batavegi. Eftir á fannst mér dýrmætt að hafa þarna fengið óháða staðfestingu á að bjartsýni okkar hafði verið á rökum reist en ekki einhvers konar tálsýn til að stappa í okkur stálinu.
Dyrnar opnuðust og við gengum í annað sinn inn til Engilbjartar. Eftir að við höfðum setið hjá henni nokkra stund og talað til hennar, þakkað henni fyrir allt, hughreyst hana og kvatt, gaf ég lækninum merki. Starfsfólkið sem hafði lagst á árarnar með Engilbjörtu af öllum kröftum undanfarnar fimm vikur stóð hjá, miður sín. Stuðningurinn frá búnaðinum allt í kringum okkur tók að dvína og fjara út.
„Þetta er allt í lagi elskan mín, þú mátt fara.“
Á fáeinum mínútum lét hún smám saman af lífróðrinum í fullkominni friðsæld.
Þegar það var afstaðið bað læknirinn mig að ræða við sig í hliðarherbergi. Hann útskýrði fyrir mér að enginn hefði búist við þessum atburði en blóðþynnandi lyfin, sem voru nauðsynleg til að koma í veg fyrir blóðtappa, fælu vissulega í sér hættu á innvortis blæðingum. Hann fékk hjá mér leyfi til að láta fara fram krufningu. Ég spurði hvort eitthvað meira lægi fyrir um orsök veikindanna. Hann sagði svo ekki vera. Inflúensuveiran væri talin líklegust en mögulega yrði það aldrei vitað fyrir víst. Ég tók af honum loforð um að láta mig vita ef það skýrðist betur, jafnvel þótt það yrði ekki fyrr en löngu síðar. Hann hrósaði Engilbjörtu fyrir gríðarlegan styrk; hún hefði sigrast á miklum erfiðleikum, tekið ótrúlega miklum framförum miðað við veikindi sín, og ekki síst verið ótrúlega róleg og æðrulaus eftir að hún komst til meðvitundar þrátt fyrir sínar bágu aðstæður. Slíkt væri alls ekki sjálfsagt og sýndi mikinn innri styrk. Mér þótti vænt um þessi orð.
Við Hildur og Inga gengum saman aftur á gistiheimilið. Ég hringdi nokkur erfið símtöl heim í nánustu fjölskyldu og vini og reyndi að sjá til þess að allir sem ættu að fá þessi tíðindi strax fengju þau. Hildur og Inga hringdu í vinahópinn sín megin. Á einhverjum tímapunkti hlýt ég að hafa fengið staðfest að Guðni og Kári vissu hvað gerst hafði. Pabbi hafði haft uppi á Guðna, alnafna sínum, heima hjá okkur og Lilja systir og Pétur bróðir líka komið þangað og tekið á móti Kára þegar hann kom heim; hann hafði strax skynjað á látbragði Lilju hvað hafði gerst. Ég hringdi heim og talaði við drengina og aðra sem voru heima en þótt ótrúlegt megi virðast man ég ekkert eftir því.
Ég byrjaði að pakka niður í töskur í herberginu mínu fyrir heimferðina morguninn eftir. Til að létta á farangrinum lét ég Hildi og Ingu fá dótið sem ég hafði tekið með mér út fyrir Engilbjörtu, föt og snyrtivörur. Á meðan ég var að pakka, einn í herberginu mínu en Hildur og Inga frammi í setustofu, heyrði ég allt í einu dauft í rödd Engilbjartar:
„Halló, þetta er Engilbjört. Ég er ekki við í augnablikinu en vinsamlega skildu eftir skilaboð.“
Ég hrökk við.
Ég var með símann í vasanum og hlýt að hafa fiktað óvart í honum. Mér vitanlega hef ég aldrei, hvorki fyrr né síðar, hringt óafvitandi í neinn, hvorki í Engilbjörtu né nokkurn annan. Það er svo ótrúlegt að þetta hafi gerst einmitt á þessu augnabliki, varla tveimur klukkustundum eftir að Engilbjört lést, að ég hlýt að efast um minni mitt af þessum atburði. Getur verið að ég hafi hringt viljandi í hana til að heyra röddina hennar og hugurinn hafi síðan breytt þessu atviki eftir á? Vitglóran er jú brigðul, sérstaklega í svona aðstæðum. Sem betur fer á ég haldreipi; mig minnir að ég hafi farið strax fram í setustofu og sagt Hildi og Ingu frá þessu. Spyr þær núna hvort þetta sé rétt munað hjá mér. Jú, þær staðfesta það. Annars væri ég ennþá í vafa um þennan furðulega atburð. „Ég er ekki við í augnablikinu ...“
Seinna um kvöldið gekk ég með Hildi og Ingu yfir á gistiheimilið þeirra, sem var nokkurra mínútna gangur, og kvaddi þær þar. Þær áttu ekki flug heim fyrr en seinna og ætluðu að halda sínu striki og vera þarna saman tvær næsta dag. Á göngu minni til baka tók ég eftir því að á bak við gistiheimilið mitt var hár hóll og ákvað að ganga upp á hann. Þetta var rétt undir miðnætti. Himinninn var stjörnubjartur og hálffullt tungl. Enginn á ferli. Uppi á hólnum hafði ég útsýni yfir sjúkrahússvæðið; allar þessar háu, gömlu, rauðleitu múrsteinsblokkir voru dálítið drungalegar en samt friðsælar í tunglsljósinu. Ég velti fyrir mér hvar í þessum byggingum Engilbjört væri núna, án þess að það skipti neinu máli. Hún var bæði alls staðar og hvergi. Ég horfði upp í stjörnurnar, talaði til hennar og kvaddi hana aftur.
Þegar ég kom aftur á gistiheimilið kláraði ég að pakka. Ég vissi að ég myndi ekki geta sofnað. Pantaði leigubíl á netinu til að ég myndi ekki lenda í vandræðum með far út á flugvöll. Ég man ekki hvað ég gerði fleira þessa nótt annað en að bíða eftir morgninum.
Á flugvellinum elti ég sænsku skiltin fyrir brottfarir: „Afgångar.“ Mér fannst það viðeigandi. Ég var eins og afgangar af okkur Engilbjörtu og afgangar af sjálfum mér.
Ég millilenti í Osló, fór þar á kaffihús og pantaði mér kaffi. Mér fannst eins og afgreiðslustúlkan hlyti að sjá sorgina utan á mér. Það var svipuð tilfinning og fyrst eftir að ég setti upp giftingarhringinn tæpum tuttugu árum fyrr. Þá fannst mér fyrstu dagana að allir hlytu að taka eftir honum. „Sjáiði hvað ég er heppinn og hamingjusamur?“ En auðvitað tók enginn eftir hringnum, ekki fremur en að afgreiðslustúlkan á Oslóarflugvelli hefði grun um hvernig mér var innanbrjósts.
Ég settist með kaffibollann, tók upp símann og skrifaði hópnum.
Elsku vinir, nú er það að gerast sem ég vildi síst af öllu, að ég er á leiðinni heim til Íslands án Engilbjartar.
Eins og þið vitið væntanlega flest eða öll lést elsku Engilbjört okkar síðdegis í gær í kjölfar heilablóðfalls sem varð þá um morguninn eða nóttina.
Það er óraunverulegt að skrifa þessi orð.
Þessi atburður kom læknunum hér nokkuð á óvart en er þó að þeirra sögn þekkt áhætta af þeim veikindum sem hún glímdi við og meðferðinni við þeim.
Mögulega voru líka einhverjir kraftar að verki í þessu öllu saman sem læknunum er ekki ennþá kunnugt um.
Í öllu falli sögðu þeir mér að veikindi hennar hefðu, sérstaklega í upphafi, þróast á mjög óvenjulegan hátt, sem þeir kunna ekki fyllilega skýringu á. Það er að segja hversu hratt og hversu mikið hjarta hennar veiktist.
Þeir bættu því við að það væri aðdáunarvert hve margar hindranir henni tókst að yfirstíga með ótrúlegri seiglu og þrautseigju. Og hve yfirveguð hún var í sínum aðstæðum undanfarna daga eftir að hún vaknaði, sem þeir sögðu óvenjulegt.
Það var dásamlegt að hún skyldi síðasta kvöldið ná að taka á móti tveimur af sínum elstu og bestu vinkonum, Hildi og Ingu.
Hún var auðsjáanlega glöð að sjá þær og var upp á sitt besta á þeirri stundu.
Ég hafði síðan einnig mikinn styrk af þeirra nærveru þegar meðferðinni var hætt í gær og við fylgdum henni síðustu skrefin, sem voru fullkomlega friðsæl.
Tvisvar eða þrisvar í upphafi þessara veikinda var staðan sú að ég taldi mig raunverulega standa frammi fyrir því að hún myndi ekki hafa daginn af og eina slíka reynslu áttum við feðgar allir þrír saman úti í Gautaborg. Að því marki sem hægt er að milda svona högg held ég að sú reynsla hafi gert það.
Það er líka vert að minna á að það er langur vegur frá því að bati hefði verið í höfn ef þessi atburður í gær hefði ekki orðið. Það var löng og tvísýn vegferð fyrir höndum með mörgum brekkum.
Engu að síður er sá skilningur minn staðfestur af læknum hér, að bjartsýnin sem við leyfðum okkur, án þess að missa fæturna af jörðinni, hafi ekki verið úr lausu lofti gripin heldur átt rétt á sér.
Það var erfitt að vera ekki með drengjunum í gær en það vildi svo vel til að pabbi var í bænum, Lilja systir var heima hjá okkur og brátt komu fleiri á vettvang þannig að fyrr en varði voru þeir umvafðir fjölskyldu og vinum.
Ég skrifa þetta í Osló á leið heim og get ekki beðið eftir að hitta þá.
Takk fyrir ykkar mikla hlýhug og stuðning elsku vinir. Og ég sendi hlýjar kveðjur til ykkar allra.
Við eigum öll um sárt að binda að hafa misst yndislega og einstaka manneskju, og besta lífsförunaut og vin sem hægt er að hugsa sér. Nú tekur við tímafrekt ferli að reyna að sættast við nýjan veruleika. En Engilbjört mun ætíð lifa með okkur.