25
GAMANSEMI GUÐANNA
GAMANSEMI GUÐANNA
Þrír blóðdropar. Ég hafði sent Engilbjörtu spólu með laginu „Viltu byrja með mér?“ af þessari plötu Megasar. Oft hef ég velt fyrir mér merkingu titilsins. Hvaða blóðdropar eru þetta? Ég hef aldrei fengið neinn botn í það. Nú sit ég með unga vinkonu mína í kjöltunni og les fyrir hana ævintýrið um Mjallhvíti. Augun staðnæmast við upphaf sögunnar, þar sem móðir Mjallhvítar stingur sig á nál og úr fingri hennar koma þrír blóðdropar. Þeir kalla fram í huga hennar mynd af dótturinni sem hún óskar sér. Þrír blóðdropar höfðu í einhverjum skilningi fært mér Engilbjörtu og platan og titill hennar munu alltaf kalla mynd hennar fram í huga mér. – Og bíðum nú við, hafði ekki ljósmóðirin forðum stungið upp á því að Kristín Engilbjört, nafnan sem ég fann óvænt á netinu, fengi nafnið Mjallhvít? Og móður hennar þá dottið í hug nafnið Engilbjört, sem eins konar málamiðlun? Engilbjört spratt af Mjallhvíti og þær báðar af þremur blóðdropum.
Alls staðar sé ég tengingar. Næstum eins og það sé orðin sjúkleg árátta. En þær eru þarna.
Kannski eru þær til marks um „gamansemi guðanna“, sem Megas söng um í samnefndu lagi á þessari sömu plötu. Það er snilldarlegur texti um margvísleg háleit áform og markmið okkar mannanna sem við ráðum þó engu um. Við erum „auðveld bráð hinna gamansömu guða“ sem stríða okkur og spilla fyrir okkur sér til skemmtunar; „gangandi fyndni á þeirra vegum“; getum sett okkur markmið og reynt að „steyta rýran hnefa“ en stórmennskan fer okkur síst „svo hlægilega takmörkuðum og tregum“; verðum „að athlægi í kviksyndinu fyrir örlagaglettur“.
Hver eða hvað ræður því sem gerist? Afstaða okkar til þess hlýtur að móta viðbrögð okkar við áföllum. Ef andlát Engilbjartar var ákveðið af Guði hlyti ég að velta fyrir mér tilganginum og ástæðunni. Mér finnst það einfalda málið töluvert ef þetta var tilviljanakennd þruma úr heiðskíru lofti sem hafði hvorki tilgang, ástæðu né geranda. Öðrum finnst huggun í því að allt sé hluti af einhverju góðu plani hjá alvitrum mætti.
Einhvern tímann trúðu norrænir menn því að örlög þeirra væru á valdi þriggja norna. Grikkir og Rómverjar trúðu á örlagaguði sem höfðu svipuð völd. Síðan tók „okkar“ guð við, en hvar mörkin liggja á milli þess sem hann ákveður og við sjálf hef ég aldrei almennilega skilið og svo virðist sem það hafi jafnvel oft verið á reiki hjá þeim lærðustu. Þórbergur segir hæðnislega í Bréfi til Láru: „Drottinn allsherjar situr uppi á himinbungunni og stjórnar þaðan heiminum svona með höppum og glöppum (sbr. samsullið forlög og frjálst val).“
Á síðustu öldum hefur trúin á vald einstaklingsins yfir eigin örlögum vaxið og margir jafnvel viljað ganga svo langt að segja að hverjum einstaklingi séu allir vegir færir sé hann bara nógu duglegur. „Hver er sinnar gæfu smiður.“ „Draumar þínir geta ræst.“ „Þú getur gert allt sem þú einsetur þér.“ Ég tengi þessa afstöðu einkum við Bandaríkin en hún sést auðvitað miklu víðar, til að mynda í ljóði Kristjáns frá Djúpalæk, „Mitt faðirvor“, þar sem segir: „Við getum eigin ævi / í óskafarveg leitt / og vaxið hverjum vanda / sé vilja beitt.“ Og síðar: „Þó örlög öllum væru / á ókunn bókfell skráð / það næst úr nornahöndum / sem nógu heitt er þráð.“ Mögulega er þarna fremur verið að hampa jákvæðu hugarfari og bjartsýni heldur en þeirri trú að okkur séu beinlínis allir vegir færir. Og nú til dags virðist athyglin einmitt aðallega beinast að réttu hugarfari; jákvæðni og bjartsýni. Það virðist í auknum mæli viðurkennt að vissulega geti ekki allir draumar okkar ræst, en í staðinn kemur fagnaðarerindið um að við ráðum því hvernig við bregðumst við mótlæti. „Vertu jákvæður, horfðu á björtu hliðarnar.“ Það er allt að því skipun dagsins og vekur upp spurninguna um hvort allir geti valið bjartsýni og jákvæðni. Hvort við getum valið hvernig við bregðumst við mótlæti. Það er lykilspurning. Í því sambandi er áhugavert að frá vísindunum berast okkur allháværar efasemdir um að maðurinn hafi raunverulega frjálsan vilja. Sumir telja að okkur sé hreinlega ekki sjálfrátt þegar öllu er á botninn hvolft. Ágætlega sannfærandi rök eru færð fyrir því að meira og minna öll viðbrögð okkar, tilfinningar og ákvarðanir stjórnist af innbyggðu og fastmótuðu eðli. Þetta mun enn vera nokkuð umdeilt en svarið ræður miklu um hvernig við lítum á áföll og viðbrögð við þeim.
Erfiðasta spurning kristninnar (a.m.k. eins og við Íslendingar þekkjum hana flest) er að mínu mati hver sé tilgangur þjáningar sem er ekki af manna völdum. Illsku mannsins get ég skilið; hún leiðir af frjálsum vilja sem vafalaust má færa rök fyrir að Guð hafi talið nauðsynlegan eiginleika; hún sé grundvöllur baráttu góðs og ills og hafi þannig einhverja þýðingu í stóra samhenginu. En hvers vegna ætti Guð sem er bæði almáttugur og algóður að valda – eða a.m.k. leyfa – þjáningu sem honum einum verður kennt um og hefur ekkert að gera með ákvarðanir okkar mannanna? Þjáningu af völdum sjúkdóma, slysa og náttúruhamfara? Hlýtur það ekki að þýða að hann sé annaðhvort ekki almáttugur eða ekki algóður? Mér er ekki kunnugt um að trúin eigi betra svar en það, að slík þjáning hafi einhvern tilgang sem við getum ekki skilið því að vegir hans séu órannsakanlegir.
Rithöfundurinn og fræðimaðurinn C.S. Lewis reyndi að svara sumum af þessum spurningum frá sjónarhóli kristninnar í bókinni The Problem of Pain. Hún fjallar þó aðallega um þjáningu af mannavöldum en lítið sem ekkert um sjúkdóma, náttúruhamfarir, slys og þess háttar, sem frjálsum vilja mannsins verður ekki kennt um heldur eingöngu Guði almáttugum. Tilgangur slíkrar þjáningar er að mínu mati mun áhugaverðari og erfiðari spurning en sú sem C.S. Lewis reyndi að svara. Merkilegast er þó að tuttugu árum síðar skrifaði hann frægari bók, A Grief Observed (sem mætti þýða sem Litið í eigin harm), þar sem hann skrásetur upplifun sína af því að missa eiginkonu sína úr krabbameini. Fyrstu viðbrögð hans eru reiði út í Guð. Hans gerir því skóna að Guð sé illgjarn og hafi vísvitandi blekkt þau hjónin með falsvonum um bata til þess eins að kvelja þau. Ég verð að játa að það kom mér á óvart að maður sem rökstuddi í heilli bók að þjáning heimsins væri þrátt fyrir allt í fullu samræmi við hugmyndina um algóðan og almáttugan Guð, skyldi undir eins snúa baki við þeirri niðurstöðu þegar konan hans dó. Hafði hann ekki hugleitt að þjáningin gæti sótt hann sjálfan heim? Kom það honum virkilega í opna skjöldu hve sár missirinn var? En vissulega nær hann aftur sáttum við Guð þegar frá líður í frásögninni og þá afskrifar hann fyrstu viðbrögð sín sem hálfgerða sturlun. Þar lýsir hann því ágætlega að spurningum hins trúaða um þjáningu og missi sé ekki hægt að svara á forsendum sem við getum skilið; hann treystir því einfaldlega að svarið sé til og að það sé gott.
Önnur bók sem mér þótti forvitnileg er frásögn eftir danskan prest sem missti dóttur sína, tengdason og barnabörn í flóðbylgjunni miklu á Tælandi. Hvernig skyldi hann túlka þann atburð? Hann segist trúa því að Guð hefði getað komið í veg fyrir atburðinn; að Guð hafi leyft þessu að gerast. Rétt eins og við lesturinn á seinni bók C.S. Lewis fann ég engin sannfærandi rök í þessari frásögn sem leyst gætu vandamál þjáningarinnar önnur en þau, að trúin snýst ekki um rökstuðning heldur um traust og innri sannfæringu sem verður hvorki studd né hrakin með rökum. Og það er allt í lagi. Ég hef enga þörf fyrir að gera lítið úr slíkri sannfæringu; hún hefur sínar góðu hliðar.
Spyrja má hvers vegna ég hafi ekki rætt þetta við pabba. Líklega vegna þess að ég tel mig vita ágætlega hvaða svör eru í boði. Mig langar heldur ekkert til þess að stilla honum upp við vegg og láta hann svara fyrir sína köllun og sannfæringu, sem ekki verður komist að neinni niðurstöðu um með rökum. Pabbi hefur aftur á móti kennt mér margt, meðal annars með því að benda mér á lærdómsríkar dæmisögur. Sú besta er „Ferðin sem aldrei var farin“ eftir Sigurð Nordal, sem kennir okkur að það skiptir máli að gera alltaf sitt besta jafnvel þó að háleit markmið náist mögulega aldrei.
Leitin að öruggum svörum við eilífðarspurningunni „Hvers vegna?“ er alveg ábyggilega fánýt. Eitt besta svarið við henni er að finna á skopmynd sem Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa á skrifstofu sinni. Þegar Biden var þrítugur fórust eiginkona hans og ófædd dóttir þeirra í bílslysi. Faðir hans skynjaði að slysið reyndi á trú sonarins og sendi honum því skopmynd sem átti að minna hann á að útilokað væri að finna skynsamlega skýringu á hinum hræðilega atburði; slíkt gæti einfaldlega hent hvern sem er, hvenær sem er. Á skopmyndinni hefur maður strandað á eyðieyju og hrópar til Guðs: „Hvers vegna?“ Og Guð svarar um hæl: „Hvers vegna ekki?“