21
DAGAR 24-29
DAGAR 24-29
Ég bað Engilbjörtu að loka augunum ef hún skildi mig. Hún lokaði augunum. Ég bað hana aftur og hún gerði það aftur. Ég bað hana í þriðja sinn og hún gerði það í þriðja sinn. Loksins var engum blöðum lengur um það að fletta að viðbrögð hennar, þótt lítil væru, væru raunveruleg en ekki tilfallandi ósjálfráðar hreyfingar. Liðin var vika frá því að byrjað var að minnka svæfingarlyfin; þrjár vikur frá því að við komum til Gautaborgar.
Þú ert á sjúkrahúsi í Svíþjóð. Þú veiktist en ert á batavegi. Strákarnir eru heima og þeim líður vel. Þú ert með slöngu í hálsinum og getur þess vegna ekki talað en hún verður tekin seinna. Þetta tekur tíma, ég veit að það er erfitt að bíða, þú ert að standa þig alveg rosalega vel, þetta verður allt í lagi.
Ég bað Engilbjörtu að blikka einu sinni fyrir „já“ og tvisvar fyrir „nei“ en það bar ekki árangur. Hún var augljóslega þreytt og ég lét því af þessum tilraunum. Síðdegis urðu önnur tímamót þegar mér fannst hún í fyrsta sinn kinka kolli til að svara spurningu minni. Ég spurði hana hvort hún væri syfjuð og hún myndaði orðið „pínu“ með vörunum; önnur tímamót, meiri framför. Nú færi þetta vonandi allt að koma. Mest var mér umhugað um að henni liði ekki illa. Ég tók eftir að barkinn frá öndunarvélinni lá á berum upphandlegg hennar og var nokkuð heitur viðkomu. Ég fann handklæði og setti það á milli.
Öll viðbrögð Engilbjartar voru þreytuleg en mér fannst í sjálfu sér jákvætt að henni væri ekki mikið niðri fyrir, að hún væri ekki óróleg eða í uppnámi. Sem betur fer voru engin merki um slíkt þarna. Það kom vissulega fyrir síðar en þá var alltaf hægt að bregðast við með viðeigandi hætti. Um kvöldmatarleytið sá ég í fyrsta sinn viðbrögð sem bentu til að henni lægi eitthvað mikið á hjarta. Það var þegar ég ræddi við hana um drengina og spurði hvort ég ætti ekki að skila kveðju frá henni til þeirra. Þá kinkaði hún ákveðið kolli og gaf alveg greinilega til kynna að þetta skipti hana máli. Ég hringdi að sjálfsögðu í Guðna og Kára og skilaði kveðjunni. Um kvöldið var Engilbjört að mestu sofandi; ég sat hjá henni og raulaði fyrir hana „Bí bí og blaka“.
Eftir þessar miklu framfarir fór ég bjartsýnn inn í næsta dag en varð fyrir vonbrigðum. Mér var ekki hleypt strax inn; það var verið var að skipta um einhverjar umbúðir. Þegar ég loks hitti Engilbjörtu var hún vakandi en sýndi ekki sömu viðbrögð og daginn áður. Eftir hádegi þurfti að laga drenið sem hleypti vökva úr lungunum þannig að ég gat ekki verið hjá henni. Þegar því var lokið kom í ljós að hún hafði aftur fengið dálítið af svefnlyfjum. Mér lærðist á næstu dögum að batinn var ekki línulegur heldur tvö skref áfram og eitt afturábak. Sífelldar minniháttar aðgerðir kölluðu á vægar svæfingar sem töfðu ferlið. Seint þetta kvöld var Engilbjört þó vakandi og gat svarað spurningum mínum með því að kinka kolli og hrista höfuðið og jafnvel mynda einstaka orð með vörunum sem ég náði að skilja. Hún var líka orðin eðlileg til augnanna, sem höfðu ekki verið alveg einbeitt fram að þessu. Við starfsfólkið gerðum okkar besta til að spyrja hana um allt sem okkur gat komið til hugar að gæti mögulega verið að trufla hana. Sigur vannst þegar spurt var hvort hún vildi leggjast á hina hliðina; hún kinkaði kolli, staðfesti síðan að sér liði betur og sofnaði upp úr því. Þetta voru skýrustu samskipti okkar fram til þessa.
Stór áfangi náðist næsta dag þegar doktor Grétar Örvarsson lýsti mikilli ánægju með virkni lunganna; búið var að slökkva á súrefnismettuninni frá hjarta- og lungnavélinni og lungu Engilbjartar sýndu ágæta hæfni til að sinna sínu hlutverki. Síðan varð eiginlega uppi fótur og fit þegar doktor Grétar tók skyndilega eftir einhverjum merkjum frá hjartanu! Einhverri rafleiðni sem hann hafði ekki séð áður. Hann var sýnilega uppveðraður yfir þessu og ég fylltist strax von um að mögulega hefði hjartað verið afskrifað of snemma. Engu var hægt að slá föstu en Grétari fannst þetta nógu áhugavert til að ástæða væri til að setja hjartalínuritið upp aftur. Það hafði fyrir löngu verið tekið úr sambandi af því að hjartað sló ekki hvort eð var.
Lesandinn kannast kannski við gamla grínið um hvað leikarinn Chuck Norris er mikið hörkutól. Brandararnir um þetta skipta hundruðum. Af hverju sefur Chuck Norris við ljós? Af því að myrkrið er hrætt. Chuck Norris fór á Burger King, pantaði sér McDonalds og fékk hann. Súpermann sefur í Chuck Norris-náttfötum. Mér fannst Engilbjört hafa toppað þetta allt: Þegar hjartalínuritið sýndi engan hjartslátt þá var það línuritið sem var tekið úr sambandi en hún sjálf hélt velli.
Um tvöleytið hafði ég ekki enn farið í hádegismat og nefndi við Engilbjörtu að ég væri að hugsa um að kíkja snöggt út. Hún hristi höfuðið ákveðið. Ég útskýrði að ég væri orðinn svolítið svangur. Hún gaf mér þá augnsvip sem sagði alveg kristaltært: „Og hvað með það?!“
Já, hún var sannarlega komin til baka. Ég fór auðvitað hvergi.
Um kvöldið spurði ég hana hvort hún vissi hvar hún væri og hún neitaði því. Þrátt fyrir allt var því enn nokkuð í land. Heima á gistiheimilinu hringdi ég í Guðna og Kára og nefndi við þá hvort þeir vildu hitta sálfræðing til að fá eins konar áfallahjálp; bað þá að hugsa það og meta það sjálfir. Upplýsti svo hópinn.
Nú er alls enginn vafi á því lengur að Engilbjört skilur flest sem sagt er við hana og getur oftast nær svarað játandi eða neitandi með höfuðhreyfingum. Þetta er því allt að koma. Vissulega smátt og smátt en örugglega.
Annað gott skref er að búið er að aftengja súrefnismettarann, sem kemur til af því að lungun hennar ráða núna við að sinna sínu hlutverki ein og óstudd. Plús í kladdann.
Ekki verður hjá því komist að nefna að hún er með öndunarstuðning sem gerir henni því miður ókleift að tala í bili. Vonandi fær hún sem allra fyrst aðra útgáfu af þessari græju, sem hægt er að tala með. Það er alveg í kortunum samkvæmt doktor Grétari.
Sem sagt, rétt skref með hverjum deginum. Eftir sem áður er risaverkefni fyrir höndum sem mun líklega taka mánuði frekar en vikur.
Í heimsóknunum stytti ég mér stundir við að lesa minningaþríleik Sigurðar Pálssonar. Á einum stað í Táningabók segir hann frá því þegar hann var sem unglingur nýkominn til Reykjavíkur og villtist rækilega. Var kominn langleiðina út í Gróttu þegar hann ætlaði á Dunhaga og vissi ekkert hvar hann var né hvert hann ætti að snúa sér. Hann skrifar: „Nú var ekkert annað að gera en bíta á jaxlinn og halda rólega áfram, gæta sín að fara ekki að flýta sér, það býður örvæntingunni heim. Ekki heldur að hangsa, það hefur svipuð áhrif.“
Ég er að tengja svolítið við þessa strategíu, held að ég fylgi henni ómeðvitað.
Erfiðast þótti mér að geta ekki átt betri samskipti við Engilbjörtu. Ég fór í ritfangaverslun, keypti stílabók og feitan penna og skrifaði niður stafrófið, nokkra stafi á hverja síðu. Planið var að Engilbjört gæti stafað út orð með því að gefa mér merki um „já“ eða „nei“ við hverja blaðsíðu og leitt mig þannig smám saman að réttum staf. En hún var ýmist sofandi eða í svefnmóki allan þennan dag þannig að ekki var hægt að láta reyna á þetta nýja samskiptatæki mitt. Eitt skref afturábak.
Nú voru liðnir sextán dagar frá því að Guðni og Kári fóru heim og kominn tími til að huga að flugi fyrir þá út. Eftir samtal við Guðna keypti ég flug út eftir tólf daga, 14. apríl, sem var pálmasunnudagur, og heim viku síðar, á páskadag. Þegar ég skrifa þetta finnst mér furðulegt að ég skuli ekki hafa valið flug sem var nær í tíma. Væntanlega hefur skipt máli að með þessu yrðu þeir hjá mér í páskafríinu og myndu ekki missa neitt úr skóla. Ástand Engilbjartar var orðið stabílla og enginn hafði minnst á bráða lífshættu vikum saman. Öll áherslan var nú á hægan bata sem myndi líklega taka marga mánuði. Og enn var hún sofandi bróðurpart tímans þó að hægt væri að ná sambandi við hana inn á milli. Ákvörðun mín hlýtur að endurspegla að ég hafi ekki upplifað bráða hættu, en ákvörðunin var röng.
Doktor Grétar hafði sagt mér að eitt stærsta vandamálið núna væri sýking í blóðinu. Heima á gistiheimilinu gúgglaði ég „blóðsýking, hjarta- og lungnavél, lífslíkur“. Fann greinar þar sem talað var um 35% lífslíkur. Ég ákvað að lesa ekki meira um þetta og varð mjög áhyggjufullur. Þetta var sama kvöld og ég keypti flugmiðana út fyrir drengina. Samt flýtti ég ekki fluginu þeirra og hélt mig við 14. apríl. Mér fannst þessar líkur segja til um eitthvað sem gæti gerst í framtíðinni. Það var ekki komið að þessu. Ennþá gekk allt vel. Svona var ég blindur á stöðuna. Andskotakornið.
Óvæntar og upplífgandi fréttir biðu mín daginn eftir þegar læknir sagði mér að í dag yrði mögulega prófað að gefa Engilbjörtu hjartastuð. Grunur doktors Grétars hafði þá ekki verið út í bláinn; enn var von með hjartað. Læknirinn lagði hins vegar áherslu á að fyrst þyrfti að útiloka að blóðkekkir væru í hjartanu, því þeir gætu þá farið af stað og verið mjög hættulegir. Engilbjört svaf, eins og allan þennan dag.
Inn á gjörgæsluna gekk skurðlæknir sem ég hafði ekki hitt áður. Glæsilegur maður, hár og tignarlegur. Hann var að skoða Engilbjörtu til að meta næstu skref í meðferðinni. Hann spurði mig hvort ég hefði náð sambandi við hana þennan dag. Ég neitaði því en við vorum sammála um að fyrir tveimur til þremur dögum hefði verið alveg öruggt að hún gat þá skilið það sem sagt var við hana. Honum þótti það vel af sér vikið hjá henni. „Við vorum hreinlega ekki viss um að hún myndi vakna,“ sagði hann og bætti við:
„She was as sick as you can get.“
Hún var eins veik og hægt er að vera.
Með hliðsjón af því taldi hann uppörvandi hve miklum framförum hún hefði tekið.
Ég hélt dagbók þarna úti en hún er eins og gömlu annálarnir; mest þurr upptalning á atburðum en lítið um tilfinningar og andrúmsloft. Í endurminningum Sigurðar Pálssonar fékk ég eiginlega ávítur fyrir þetta, þar sem hann talar um að tilfinningin skipti höfuðmáli fremur en nákvæm skrásetning. Ég tók þetta til mín og skrifaði í dagbókina:
Tilfinningin í dag var ákveðin óþreyja og vonbrigði yfir því að ná nánast engu sambandi við Engilbjörtu í dag og í gær, en líka smá léttir yfir því að sitja ekki alltof lengi hjá henni sofandi sem er tilgangslaust og fara frekar annað þegar þannig stendur á. Í öðru lagi: Mjög spenntur yfir þessum pælingum um hjartastuð til að koma hjartanu hennar í gang, því það var svo til alveg búið að afskrifa það. Á sama tíma ansi uggandi yfir þessari bévítans sýkingu sem virðist geta verið meiriháttar vandamál.
Aumingi, langar mig að segja við höfund þessa texta. Vertu bara hjá henni hvort sem hún vakir eða sofir. Veistu hvað þú myndir gefa fyrir það í dag? – Ef ég fengi að upplifa þessa daga upp á nýtt væri ég hjá henni allan sólarhringinn. Ég myndi tala við hana viðstöðulaust í þeirri von að hún heyrði það. Ég myndi líka víkja frá handritinu um hvar hún væri stödd og hvað væri að gerast og tala meira um hvað ég elskaði hana mikið. En á þessum tíma var þrátt fyrir allt ábyggilega rétt að hugsa um eigin andlegu og líkamlegu heilsu og safna kröftum á meðan hún svaf. Ákvarðanir verður að meta út frá þeim sjónarhóli sem þær eru teknar frá, ekki síst þær sem við sjáum eftir.
Engilbjört svaf sömuleiðis af sér næsta dag vegna ýmissa aðgerða og svæfinga sem þeim fylgdu. Það var þriðji dagurinn án sambands. Ég fór í bæinn og lýsti þeirri ferð í færslu til hópsins daginn eftir, þar sem ég fór dálítið fram úr sjálfum mér í hressleika eftir stutt yfirlit um helstu tíðindi af gjörgæslunni. Þetta var raunar fyrsta færslan í fjóra daga enda hafði ekki verið frá miklu að segja í sambandsleysinu eftir öll uppörvandi tíðindin þar á undan.
Þið fyrirgefið mér vaðalinn hér á eftir en það er góð dægrastytting fyrir mig að skrifa þessa pistla af og til, umfram bara nýjustu fréttir.
Það kom eftirminnilegur skurðlæknir inn á gjörgæsluna, maður sem ég hafði ekki séð áður. Hann var svo löðrandi í glæsileika, hár og grannur, grásprengdur en hraustlegur, nánast eins og miðaldariddari, að þegar ég sneri mér við þar sem ég sat við rúmstokkinn og sá hann ganga inn þá spratt ég ósjálfrátt á fætur í virðingarskyni, eins og konungur Skandinavíu hefði gengið í salinn. Þessi höfðingi hrósaði Engilbjörtu fyrir að hafa tekist að vakna upp úr þessum veikindum með sæmilegri meðvitund og þótti það greinilega ekki sjálfgefið. Ég fylltist stolti og langaði að hrópa sigri hrósandi til Engilbjartar að Ríkharður Ljónshjarta hefði verið að hrósa henni.
Ég fór með buxur til skraddara um daginn, það var lágvaxinn og vinalegur Indverji sem sat þarna við saumavél. Það var að byrja að myndast smá gat við annan rassvasann sem mér leist ekki alveg á en tímdi ekki að henda buxunum. Þegar ég kom aftur að sækja þær brá mér illilega í brún því skraddarinn stóð hálfnakinn úti á miðju gólfi, búinn að fletta skyrtunni upp á miðja bringu með bumbuna bera eins og einhver dóni. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, heilsaði honum með hálfum hug, tilbúinn að flýja ef hann réðist á mig. Þetta reyndist þá vera viðskiptavinur sem var að láta mæla sig. Viðgerðin var til fyrirmyndar.
Þaðan fór ég í klippingu enda orðinn eins og útigangshross eins og mamma sagði alltaf. Það er stressandi að fara í fyrsta sinn í klippingu á nýjum stað, sérstaklega í útlöndum. Ekki vill maður koma þaðan út eins og fífl. Ég gerði því vettvangskönnun á nokkrum stöðum sem mér leist hreint ekki á. Rakst svo loks á flotta stofu, næstum of „posh“ en allt í lagi, fékk tæpar fimm stjörnur á Google. Fór inn og fékk tíma klukkutíma seinna. Þegar ég bókaði nefndu þau verðið og það sló mig sem frekar hátt en ég pældi ekki mikið í því og bara pantaði. Korteri seinna fattaði ég að það var virkilega hátt, vel yfir 10 þúsund kall. Kíkti aftur á Google og sá fyrsta textadóminn: „Super expensive!“ Takk fyrir kærlega. Þegar ég svo mætti í tímann klukkutíma seinna og settist á biðstofuna runnu á mig tvær grímur. Fyrsti viðskiptavinurinn sem ég sá var einhvers konar David Bowie sinnar kynslóðar, ógurleg týpa í ógurlegum fötum með ógurlegt hár. Ég sat þarna við hliðina á þessu fyrirbæri eins og illa gerður hlutur, í stagbættum gallabuxum, nýkominn frá skraddaranum, og var bara að leita að klassískri drengjaklippingu sem virtist mörgum deildum fyrir neðan virðingu þessa tískuhúss. Ég kveið því að hitta týpuna sem myndi klippa mig. En hún reyndist þá vera ósköp vingjarnleg og móðurleg fimmtug kona ættuð frá Tyrklandi sem fannst bara frábært að fá eitt svona einfalt verkefni. Þvotturinn fór fram í sérstöku herbergi með dimmu ljósi og panflaututónlist. Um leið og ég settist í stóran svartan leðurstól fór rafdrifinn skemill af stað og breytti stólnum í rúm. Það var þó bara smjörþefurinn því þessu næst byrjaði stóllinn að nudda mig hátt og lágt. Þvílík upplifun! Á meðan þvoði sú tyrkneska hár mitt alúðlega og panflauturnar hljómuðu og manni fannst maður bara vera staddur í einhverjum kyrrlátum og friðsælum Avatar-frumskógi. Þessi þvottur var hæglega fimm þúsund króna virði þannig að ég var óvænt kominn í massífan plús. Sú tyrkneska var mjög móðurleg gagnvart minni aðstöðu og við ræddum heima og geima. Í ljós kom að hún er gift Jimmy frá Skotlandi. Það fannst mér skemmtilega langsótt par: Fatoush frá Tyrklandi og hinn skoski Jimmy. Þau eru búin að kaupa hús á sólarströnd í Tyrklandi og ætla að hafa það náðugt þar eftir fáein ár. Bauð okkur Engilbjörtu að koma þangað hvenær sem væri til að safna kröftum. Loks bauð hún mér augnabrúnaplokk á kostnað hússins, sem mér datt ekki í hug að afþakka. Þá dró hún fram tvinnakefli og framdi eitthvert kraftaverk á hausnum á mér sem fólst í því að vefja þennan tvinna á einhvern óskiljanlegan hátt og rekja hann svo upp með snöggu handtaki og klemma hárin á milli um leið. Þessi merkilega reynsla þarna á stofunni ætlaði engan endi að taka. Ég kom út sem nýr maður yst sem innst.
Það var um kvöldið eftir þessi ævintýri hjá skraddaranum og Fatoush sem ég sat hjá Engilbjörtu á gjörgæslunni og las yfir mig af skáldinu; virti fyrir mér flata línuna á hjartalínuritinu og datt í hug að hún væri eins og sléttur hafflötur þar sem Engilbjört reri lífróður.