17
DAGAR 11-16
DAGAR 11-16
Eftir að ég hafði kvatt Guðna og Kára á flugvellinum fórum við Guðmunda, frænka Engilbjartar, saman á spítalann. Hún hafði komið til okkar frá Osló daginn áður en ekki getað heimsótt Engilbjörtu vegna aðgerðarinnar sem hafði staðið frá hádegi vel fram yfir miðnætti. Guðmunda er hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu og því flestu vön en henni var sýnilega brugðið í heimsókninni og hafði á orði hve ólíkt það væri að sjá einhvern nákominn sér í þessum aðstæðum.
Við hittum skurðlækni sem sagðist nokkuð vongóður um horfurnar, hóflega bjartsýnn. Annar læknir sagði okkur hins vegar að hjartavöðvinn virtist ónýtur og næstum útilokað að hans mati að hann myndi jafna sig. Sá vongóði hefur því væntanlega átt við horfurnar að öðru leyti.
Þegar Guðmunda var farin aftur heim til Noregs heimsótti ég Engilbjörtu í fyrsta sinn einsamall. Það kom mér í opna skjöldu hve gerólíkt það var því að hafa einhvern með sér. Skrefin inn til hennar voru þyngri. Nándin var meiri. Ástandið var raunverulegra. Áður var ég í hlutverki pabbans og gestgjafans en nú var ég bara ég sjálfur, einn með Engilbjörtu. Það var miklu erfiðara.
Eftir heimsóknina gekk ég um borgina, meðal annars hið svipmikla Haga-hverfi. Það byggðist upp sem verkamannahverfi á nítjándu öld og mun hafa verið fremur óheflað á sínum tíma en hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga. Á göngunni fékk ég þrjú símtöl, meðal annars frá tveimur gömlum skólabræðrum sem ég hafði varla heyrt í í 20 ár þó að annar þeirra hefði síðan tengst mér í gegnum vinskap sona okkar. Þeir voru að hringja til að bjóða fram aðstoð.
Um kvöldið upplýsti ég hópinn.
Ég hef í dag þrammað um Gautaborg þvera og endilanga og sver mig að því leyti í ætt við bróður minn, sem fengið hefur gælunafnið Reynir Pétur Rúnar sökum göngugleði.
Það er svona að vera orðinn einn; þá finnst mér oft ágætt að labba frekar en að taka alltaf vagninn. Því miður sá ég þetta ekki fyrir þegar ég keypti mér þriggja daga strætópassa í gær. Ég er heldur betur að stórtapa á þeim viðskiptum!
Það var dálítið skrýtin tilfinning að heimsækja Engilbjörtu í fyrsta sinn einsamall í morgun en það var strax orðið eðlilegt í kvöldheimsókninni nú áðan.
Staðan er í stórum dráttum óbreytt. Eins og við var að búast þarf Engilbjört að jafna sig í nokkra daga eftir aðgerðina miklu sem gerð var í fyrradag. Eftir það verður hægt að byrja að prófa að vekja hana og vegna þess hve hún hefur verið lengi djúpt sofandi mun það taka hana nokkra daga í viðbót að vakna almennilega.
Óneitanlega aukast síðan líkurnar á því dag frá degi að hún muni þurfa hjartaígræðslu.
Þetta dæmi allt er auðvitað með miklum ólíkindum. Læknir sem ég talaði við í gær sagðist aldrei á sínum sextán ára ferli hafa séð svona harkalegt tilfelli af veirusýkingu í hjarta. Þá átti hann við hversu hratt þetta gerðist og hversu mikil áhrifin urðu. Er þetta þó mjög sérhæfð hjartagjörgæsludeild sem fær til sín öll svæsnustu tilfellin í Svíþjóð.
Manni er efst í huga þakklæti yfir því að við Engilbjört skulum fá að taka hér til okkar risastóra sneið af takmörkuðum gæðum heimsklassaþjónustu í landi sem skuldar okkur í sjálfu sér ekki neitt. Við njótum heldur betur góðs af því. – Öfugt við þriggja daga strætópassann!
Núna skilst mér að aðgangur Íslendinga að þessari þjónustu byggi á samningi um líffæragjafir frá Íslandi til Svíþjóðar. Hún er jafn dýrmæt fyrir því.
Daginn eftir var prófað að minnka svefnlyfin í smástund til að athuga hvort Engilbjört sýndi einhver viðbrögð, sem hún gerði. Þessi tilraun skipti miklu máli því að niðurstaðan dró úr líkum á að hún hefði orðið fyrir alvarlegum heilaskaða. Ekki yrði þó hægt að fullyrða um það fyrr en hún vaknaði. Óvissan var því á mörgum vígstöðvum. Eftir því sem dagarnir liðu rann smám saman upp fyrir mér að spurningin snerist ekki bara um að lifa þetta af heldur líka um það hvernig líf tæki við.
Hjúkrunarfræðingur benti mér á að við hliðina á sjúkrahússvæðinu væri grasagarður sem vert væri að skoða. Ég tók hana á orðinu og sá ekki eftir því. Þetta er risastór og fallegur garður og þykir á heimsmælikvarða á ýmsum sviðum. Eins ágætt og það var að ganga um borgina var enn betra að ganga innan um tré og plöntur. Tólf þúsund tegundir utandyra, frá öllum heimshornum. Þarna var japanskur lundur og kóreskur lundur. Nokkur skref og við blasti nýr heimur, nýtt land. Falleg tré, skrýtin tré og endalaus fjölbreytni af smáum sem stórum plöntum. Vorið var ekki komið og litadýrðin því af skornum skammti en það gerði ekkert til; þetta var friðsæll ævintýraheimur. Kærkomin andstæða við gjörgæsluna, eins björt og hún var. Enn fleiri heimar voru í boði í stóru gróðurhúsi með mörgum sölum; hitabeltið, eyðimörkin, yfir þúsund tegundir af orkídeum og tré frá Páskaeyju sem hvergi finnst lengur í náttúrunni; sennilega er ekki fjarri lagi að það hafi verið í gjörgæslu. – Ég átti eftir að ganga oft þarna um til að drekka í mig kyrrðina, sem tókst oftast nær.
Eftir kvöldheimsókn til Engilbjartar ræddi ég við strákana heima. Guðrún Lára amma þeirra var hjá þeim. Þeir virtust rólegir og æðrulausir sem gladdi mig.
Biðin hélt áfram eftir því að nýrnavélin næði að draga nógu mikið úr vökvasöfnun til að hægt yrði að loka brjóstholinu. Vökvinn hafði aftur aukist eftir seinni stóru aðgerðina – þessa sem ekki hafði þótt ástæða til að vara mig við að væri lífshættuleg eins og sú fyrri en tók þó álíka langan tíma. Engilbjört var ábyggilega einum fimmtán kílóum yfir sinni eðlilegu þyngd. Lítið bar þó á því í andliti hennar; mér fannst hún líta vel út. Líkaminn var allur undir sæng og ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að hrófla við henni af ótta við að setja eitthvað úr skorðum, vitandi af opnu brjóstholinu og viðkvæmum tengingum við æðar og slöngur. Ég gat þó haldið í hönd hennar og strokið henni um ennið en oftast hafði ég höndina á sænginni, strauk henni og klappaði og vonaði að einhvers konar nærvera skilaði sér til hennar í gegnum svefninn.
Undan sænginni til fóta lágu fjórar sverar slöngur, glærar en samt dökkrauðar á lit vegna vökvans sem þær fluttu á milli líkamans og hjarta- og lungnavélarinnar. Raunar voru þetta tvær sams konar vélar hlið við hlið. Furðulega gamaldags að sjá. Stálgráir málmkassar með mjög einföldum skjá sem hefði getað verið framan á uppþvottavél. Einn mjög stór snúningstakki þar við hliðina. Kassarnir voru opnir að ofanverðu og ofan í þeim aðrir svartir kassar sem minntu á rafgeymi í bíl. Ég skal ekki útiloka að þetta hafi hreinlega verið rafgeymar því að alls ekki mátti slokkna á þessum græjum. Utan á þennan búnað voru festir litlir gegnsæir mótorar, eins konar vindur, sem þeyttu súrefni saman við blóðið. Slöngur fram og til baka til að tengja allt saman. Merkilega groddalegt en líklega er einfaldleikinn dyggð í svona mikilvægum búnaði, auk þess sem hann er mögulega ekkert svo flókinn þegar allt kemur til alls.
Flakkið hélt áfram á milli gjörgæslu og skurðstofu. Smærri aðgerðir sem oft drógust á langinn vegna blæðinga. Myndatökur, rannsóknir, sárahreinsun, umbúðaskipti og svo framvegis. En engin krísa, að minnsta kosti ekki mér vitanlega.
Hjúkrunarfræðingur skrifaði til Engilbjartar í dagbókina:
Halló!
Þegar ég lít út um gluggann sé ég sólina gægjast fram úr skýjunum. Er vorið á leiðinni? Vonandi!
Þú ert ennþá á svefnlyfjum og virðist afslöppuð og róleg. Maðurinn þinn er hérna og heimsækir þig nokkrum sinnum á dag og fer líka í langar gönguferðir á hverjum degi.
Þú varst í aðgerð í gær til að laga brjóstholið. Þú ert enn mjög þrútin og þess vegna er brjóstholið ennþá opið.
Núna er kominn tími fyrir okkur að fara heim og við vonum að þú eigir góðan dag.
Haltu áfram að berjast Engilbjört!
Ég gekk nýja leið niður í miðbæ til tilbreytingar og fann þá hljómplötuverslun og kaffihús. Veggirnir voru þaktir plakötum af hljómsveitum en við afgreiðsluborðið hékk árituð ljósmynd af Ninu Persson, söngkonu sænsku sveitarinnar The Cardigans. Sú sveit var nýkomin fram á sjónarsviðið þegar við Engilbjört byrjuðum saman. Lögin þeirra voru spiluð látlaust í Vökupartýjunum sem við sóttum saman á háskólaárunum. Myndin af Ninu minnti mig á þessa gömlu góðu tíma. Fáar sveitir endurspegluðu betur árið 1995 í okkar lífi en The Cardigans. Hversu viðeigandi væri það ekki að kaupa þessa mynd hér? Mig dauðlangaði til þess en lét þó ekki verða af því í þetta sinn.
Fimm dögum eftir að strákarnir fóru heim var brjóstholinu loks lokað. Nú yrði loksins hægt að byrja að vekja Engilbjörtu af svefni sínum, á sextánda degi veikindanna, þrettán dögum eftir að hún kom til Gautaborgar.
Pétur bróðir var væntanlegur út til mín þennan dag og ég hafði keypt miða handa okkur á tónleika með norsku hljómsveitinni Highasakite þá um kvöldið. Ég hafði séð þau á Airwaves nokkrum árum áður, fylgst með þeim síðan og líkað vel. Fannst upplagt að við Pétur skelltum okkur, fyrst svo vildi til að þau væru í borginni. Þegar ég keypti miðana hafði ekki staðið til að hefja vakningu fyrr en síðar, en nú hafði því verið flýtt. Mér fannst galið að fara út þetta kvöld, jafnvel þó að mér hefði verið sagt að Engilbjört yrði nokkra daga að vakna. Hjúkrunarfræðingarnir hristu bara höfuðið yfir þessum efasemdum mínum og sögðu fráleitt annað en að ég færi.
Ég upplýsti hópinn um tímamót dagsins.
Næsti stóri áfangi, sem lengi hefur verið beðið eftir, er að hægt yrði að ganga almennilega frá eftir stóru aðgerðirnar tvær þar sem hjartavélin var tengd beint í brjóstholið.
Þetta var loksins gert í morgun og er mikið fagnaðarefni og stór áfangi á þessari leið.
Þetta þýðir að núna verður hægt að byrja að reyna að vekja hana.
Það er mjög ófyrirsjáanlegt hversu langan tíma það mun taka. Það gætu hæglega orðið nokkrir dagar þar til hún verður almennilega með sjálfri sér.
Hjúkrunarfræðingarnir sögðu mér að fara alveg hiklaust á tónleikana í kvöld sem ég er með miða á en eðlilega var ég dálítið tregur til þess í ljósi nýjustu frétta. Ef Engilbjört vaknar í kvöld og fær þau svör að ég hafi skellt mér á tónleika þá er þetta náttúrlega búið!
Við Pétur Rúnar ætlum saman, en hann er væntanlegur hingað síðdegis.
Ég er að skrifa þetta á Avalon-veitingastaðnum, þar sem við sátum saman fyrir tæpum tveimur árum með Ingu og Gesti og hituðum upp fyrir Coldplay-tónleika þá um kvöldið.
Upp úr gullkornaöskjunni kemur gott atriði frá því að Kári var fjögurra ára.
„Hvenær ferðu í andaveisluna?“ spurði hann þá mömmu sína sem var á leið í gæsapartý.