13
DAGUR 5
DAGUR 5
Dagurinn hafði alla burði til að verða góður. Guðni var loksins væntanlegur til okkar úr skólaferðalaginu í Brussel. Hann átti flug í gegnum Kaupmannahöfn og yrði kominn síðdegis. Þegar upp var staðið reyndist þetta hins vegar vera næsterfiðasti dagurinn minn í Gautaborg.
Mitt fyrsta verk var að færa umsjónarkonu gistiheimilisins blóðug sængurfötin frá kvöldinu áður, afsakandi og skömmustulegur. Hún eyddi því máli vinsamlega og vafningalaust og þvertók fyrir að ég skuldaði þeim neitt.
Á sjúkrahúsinu hittum við Kári nýjan lækni sem settist niður með okkur í litla gestaherberginu til að eiga við okkur alvarlegt samtal. Allar þessar erfiðu aðgerðir síðustu tvo daga höfðu ekki dugað til að koma á fullnægjandi blóðflæði um líkamann. Hér þarf lesandinn kannski að rifja upp að hjartað sló ekki. Það segir sig næstum því sjálft að langsótt er að halda uppi eðlilegu blóðflæði við slíkar aðstæður með því að tengja hjarta- og lungnavél við líkamann annars staðar en við sjálft hjartað, miðstöð blóðrásarinnar. Slíkar minniháttar tengingar – ef hægt er að kalla eitthvað minniháttar í þessu sambandi – eru fyrst og fremst gerðar til að létta álagi af hjarta sem er laskað en slær þó; þeim er alla jafna ekki ætlað að taka alfarið við hlutverki þess, í það minnsta ekki til lengri tíma.
„Við erum komin á þann tímapunkt að við þurfum að opna brjóstholið og tengja slöngurnar miðlægt,“ sagði læknirinn.
Miðlægt, eða „sentralt“, þýðir í þessu samhengi við hjartað, eða nánar tiltekið við æðarnar sem liggja alveg við það.
„Þetta er erfið og hættuleg aðgerð og ég býst við að hún geti staðið fram að miðnætti,“ sagði hann og bætti síðan við orðum sem ég gleymi aldrei:
„She might not survive.“
Það er ekki víst að hún lifi aðgerðina af.
Ég sá út undan mér hvernig Kári stífnaði upp í sæti sínu. Mér fannst nokkuð bratt hjá lækninum að segja þetta svona hreint út, með Kára viðstaddan, en hallast þó að því að það hafi verið alveg hárrétt hjá honum. Best að segja hlutina eins og þeir eru. Auðvitað dauðbrá mér sjálfum en sterkasta minningin er samt hugsunin um að gengið væri ansi nálægt Kára með þessum orðum.
Við sáum sem sagt fram á að bíða á milli vonar og ótta allan daginn og langt fram á kvöld. Við gengum af spítalanum niður í bæ, settumst inn á tvö kaffihús og fórum svo krókaleið á heimleiðinni fram hjá náttúruminjasafni sem við ætluðum að skoða en reyndist vera lokað. Gangan dreifði huganum og deyfði kvíðann. Það er svolítið óraunverulegt núna að hugsa til okkar Kára á vappi um bæinn við þessar aðstæður. Það vekur mann til umhugsunar um hvað fólkið sem við mætum á rölti um Laugaveginn eða situr á næsta borði á kaffihúsinu gæti verið að burðast með, þó að það líti út eins og hver annar í fjöldanum.
Þegar við komum heim á gistiheimilið stimplaði ég mig inn hjá hópnum. Þrátt fyrir allt var hann of fjölmennur til að réttlætanlegt væri að vekja þar kvíða og óþreyju með tali um yfirvofandi aðgerð sem enginn vissi hvenær myndi ljúka.
Við Kári fengum okkur heilsubótargöngu áðan, í dálitlum kulda en glampandi sól. Ætluðum á veitingastað sem hafði verið mælt með við mig, en hann er þá lokaður á mánudögum. Fórum í staðinn á tvö kaffihús og Kári gerði samanburðarrannsókn á kakógæðum. Niðurstaðan er að það er ekki á vísan að róa í þeim efnum, en þeir fiska þó sem róa.
Við ætluðum síðan á náttúruminjasafnið sem er hér rétt hjá en það er þá líka lokað á mánudögum, eins og margt annað í Svíþjóð að því er virðist – þó ekki sjúkrahúsin sem betur fer!
Við gengum þó um fallegt svæði.
Ennþá er verið að vinna að réttu jafnvægi í þessum flóknu hlutum sem þarf að stýra og stjórna fyrir líkamann. Maður vildi auðvitað að þetta gengi allt hraðar og betur en það er akkúrat ekkert annað fyrir okkur að gera en að vera sjálfir í góðu standi, hreyfa okkur, nærast og dreifa huganum.
Og eftir smástund förum við að sækja Guðna út á völl, en hann ætti að vera að fara í loftið frá Köben akkúrat núna.
Auðvitað var þó ekki um annað að ræða en að upplýsa allra nánustu fjölskyldu og vini um hve krítísk staðan var. Ég hringdi í Ásu elstu systur Engilbjartar og Ingu vinkonu hennar og sagði þeim hreint út að nú stæði fyrir dyrum lífshættuleg aðgerð.
Þá var orðið tímabært að sækja Guðna á flugvöllinn með hjálp hins liðlega góðkunningja okkar frá Sjúkratryggingum. Það var óskaplega gott að fá Guðna til okkar en líka óskaplega erfitt að eiga eftir að segja honum fréttirnar. Ég hafði verið í sambandi við hann fyrr um daginn en gat alls ekki hugsað mér að hann sæti uppi með þessar ægilegu fréttir einsamall á flugvelli í Kaupmannahöfn. Þegar við komum á gistiheimilið fór ég með þá drengi báða inn á herbergið okkar og útskýrði fyrir Guðna að mamma hans væri í þeim töluðum orðum að undirgangast aðgerð sem ekki væri víst að hún myndi lifa af. Síðan föðmuðumst við og grétum saman allir þrír.
Þegar við höfðum jafnað okkur gengum við niður í bæ, fengum okkur að borða og gengum svo aftur til baka á spítalann. Við reiknuðum með að þurfa að bíða þar á milli vonar og ótta í nokkra klukkutíma, alla vega til miðnættis og jafnvel lengur í ljósi reynslunnar frá deginum áður. Það kom okkur því mikið á óvart að hjúkrunarfræðingurinn sem tók á móti okkur sagðist halda að aðgerðin væri búin. Skömmu síðar kom læknir sem staðfesti það. Aðgerðin var búin og gekk vel! Allar blæðingar hættar og vökvasöfnun að ganga til baka. Ég get ekki lýst því hve okkur var létt.
Ég stóðst ekki mátið að vera svolítið jákvæður í stöðuuppfærslunni til hópsins um kvöldið.
Þetta var að mörgu leyti góður dagur.
Þótt ekki sé hægt að kalla það annað en varnarsigra þá eru ýmis vandamál, sem hafa verið að valda heimssérfræðingunum hér dálitlu hugarangri undanfarið, loksins aðeins að minnka. Sumpart er það vegna þess að gripið hefur verið til róttækari ráðstafana gegn þeim, sem eru geymdar uppi í erminni þar til fullreynt er að vægari meðul dugi ekki.
Án þess að gerast of fræðilegur fyrir ykkur – ófaglærða almenna lesendur upp til hópa :) – þá er búið að tengja hjartavélina beint við hjartað, sem gefur bestan árangur en er líka flóknast að gera. Sem stendur er útlit fyrir að það hafi heppnast vel.
Þessir varnarsigrar eru ekki lokatakmarkið en gefa okkur mun betra tækifæri til að ná því. Og þess vegna má alveg gleðjast yfir þeim þó að verkefnið sé áfram stórt og mikið.
Við feðgar finnum sterkt fyrir ykkar stuðningi. Við þökkum einnig fyrir hversu nærgætin þið eruð varðandi símhringingar og fyrirspurnir. Það er dýrmætt að fá svigrúm og næði til að takast á við hlutina á eigin tempói, um leið og nauðsynlegt er að koma upplýsingum á framfæri. Ég held að þessi síða fyrir nánustu vini og fjölskyldu hafi verið góð og jafnvel nauðsynleg í þessu skyni.
Það er svakalega gott að vera búnir að fá Guðna til okkar, en hann var erlendis þegar mamma veiktist og er því að takast á við þetta með okkur fyrst núna.
Við áttum góða heimsókn til hennar á gjörgæsluna undir kvöld. Læknarnir útskýrðu vel fyrir okkur hvað er verið að gera og hver staðan er á hinum og þessum vígstöðvum. Við bárum henni góðar kveðjur frá ykkur öllum sem við gerum ráð fyrir að hún heyri og finni.
Ég hafði líka loksins vit á að spyrja hvort það kæmi fyrir að spiluð væru óskalög sjúklinga inni á gjörgæslunni, svona fyrst sannað þykir að raddir og snerting ástvina geti haft jákvæð áhrif, því að hið sama gilti þá væntanlega um tónlist.
Jú, það kemur fyrir að þau spili tónlist sögðu þau. Þannig að ég bað þau að spila fyrir hana „Viva La Vida“ við fyrsta tækifæri, sem þau lofuðu að gera.
Verst hvað þeim á eftir að bregða rosalega þegar hún slítur sig lausa frá tækjunum.