Hinn 11. apríl síðastliðinn lést hún Engilbjört frænka mín af völdum bráðasjúkdóms á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg í Svíþjóð. Heimsókn mín til hennar í Svíþjóð fyrir nokkrum vikum er sem greypt í huga mér. Við aðstæður sem þessar er erfitt að vita hvar skal byrja. Við Engilbjört erum systradætur, aldar upp af vestfirskum kjarnakonum. Mæður okkar voru alla tíð mjög nánar enda deildu þær saman rúmi öll sín uppvaxtarár sökum þröngs húsakosts og stórs systkinahóps. Hugurinn hvarflar til barndómsins, eftirvæntingarinnar og gleðinnar sem ávallt var til staðar þegar við hittumst, mikill leikur og mikið fjör. Allar bíóferðirnar, sundferðirnar, ferðalögin, að næturgistingunum ófáum. Vor eftir vor gengum við ákveðnar niður Laugaveginn að kaupa eins sumarföt. Minningar um óendanlega marga jakka og anorakka sem við áttum í stíl dúkka upp að fermingarfötunum ógleymdum árið 1986. Draktirnar sem mæður okkar keyptu á okkur í stíl, þú í blárri og ég í hvítri. Tímalínur okkar lágu saman í lífinu. Unglingarnir, við, sem fikruðum okkur áfram til fullorðinslífsins með tilheyrandi skemmtunum, ærslagangi og sólböðum á sólarströndum. Við nutum hins áhyggjulausa lífstíls. Með árunum tókum við fullorðinslífinu með meiri alvöru, stofnuðum heimili og eignuðumst okkar fyrstu börn með sex mánaða millibili. Börn númer tvö, drengirnir okkar sem fermast nú í ár, fylgdu í kjölfarið nokkrum árum seinna. Við studdum hvor aðra í gegnum súrt og sætt, í gegnum meðgöngur og brjóstagjafir og í öllu því sem upp á ber í lífi fullorðinna kvenna. Já, það er erfitt að vita hvar skal byrja við aðstæður sem þessar. En þetta skal ég muna, fallegu, litlu stelpuna með dökka, síða hárið, sem var mér svo kær, þig skal ég muna. Ungu konuna, sem tók lífið föstum tökum, vann sér inn þrjár háskólagráður, stofnaði heimili, gifti sig og eignaðist tvo myndarpilta, þig skal ég muna. Ég leyfi mér að vitna í orð þín, Engilbjört, þegar þú skrifaðir til mín tæpu ári eftir að mæður okkar létust með nokkurra mánaða millibili, árið 2009: "Guð minn góður hvað ég sakna oft að koma niður í Sólheima og hitta þær á spjallinu við eldhúsborðið, með kaffi og með því. Ég trúi því bara ekki að það eigi aldrei eftir að verða aftur. Þær voru svo skemmtilegar og einstakar báðar. Svo gaman að tala við þær. En svona er lífið." Nú sit ég hér og skrifa þessi fátæklegu orð, mín kæra Engilbjört, og ég trúi því bara ekki að ég eigi aldrei eftir að sitja við nokkurt eldhúsborð, með kaffi og með því og spjalla við þig. En svona er lífið. Mínar dýpstu samúðarkveðjur votta ég ykkur, Kári Freyr, Guðni Þór og Ólafur Teitur. Við fjölskyldan minnumst Engilbjartar með hlýhug og djúpri sorg.
Guðmunda Jakobsdóttir
Guðmunda Jakobsdóttir