Engilbjört hét ekki bara fallegasta nafni sem til er heldur var augljóst að hún gat ekki heitið neinu öðru nafni. Engilfríð og lýsti upp umhverfið með sínu breiða bjarta brosi og léttu lund. Við kynntumst öll í Versló þar sem bekkjarsystkini í 6-S gáfu henni gælunafnið Engill og hún bar það með rentu. Hún gat allt. Öflugur námsmaður, dansari í nemendamótum, hrókur alls fagnaðar og traust vinkona á raunastundum. Árin í Versló voru þó aðeins upphafið að vinskap og samgangi okkar við Óla Teit og Engilbjörtu sem hefur teygt sig yfir aldarfjórðung.
Við vorum í háskólanum þegar Óli og Engilbjört fóru að draga sig saman og það leið ekki á löngu þar til við vorum öll fjögur komin saman til Sádi-Arabíu að vinna við pílagrímaflug. Við bjuggum saman í íbúð í Rose Village í Jeddah og betra sambýlisfólk var ekki hægt að hugsa sér. Mörgum árum síðar þegar Óli Teitur talaði um Engilbjörtu við okkur vini sína skömmu fyrir brúðkaup þeirra sagði hann að hún hefði einstakt lag á að fínstilla hann eins og góðan gítar - þannig að líf hans væri ekki faskt heldur í fallegum samhljómi. Einmitt þannig var líka að búa með Engilbjörtu. Allt í kringum hana var í einstöku jafnvægi. Hún var alltaf kát, alltaf með á nótunu, stutt í brosið, föst fyrir þegar þurfti en aldrei frek og dillandi hlátur gerði allt gott.
Okkur eru minnisstæðar ótal stundir í Jeddah við eldamennsku, púsl, sólböð, bæjarferðir og hvers konar hangs þar sem nærvera Engilbjartar er hlý og einlæg og skapaði gott andrúmsloft. Og aldrei neitt vesen. Hún þoldi ekki vesen.
Eftir Jeddah fórum við fjögur saman til Þýskalands einn vetur í skiptinám og þegar heim var komið leið ekki á löngu þar til við vorum öll flutt saman inn á Melhaga 12. Engilbjört og Óli í risinu og við á hæðinni fyrir neðan. Sameiginlegur inngangur og stigagangur og á þessum árum reyndust hurðir hinn mesti óþarfi því að bæði krakkarnir og við sjálf þvældumst endalaust á milli íbúða og oftar en ekki enduðu allir á öðrum hvorum staðnum í kaffi, mat eða rauðvínslús. Dásamleg kommúna í hinum borgaralega Vesturbæ.
Kannski var það einstakt jafnaðargeð Engilbjartar og sterkur persónuleiki sem gerði það að verkum að jafnvel þótt hún sé ekki lengur hér finnum við ennþá svo sterkt fyrir henni. Minningarnar eru sannar og hlýjar og við höfum á tilfinningunni að þær muni ekkert fölna með árunum.
Engilbjört sat óvenju vel í sjálfri sér, eins og sagt er, og það er kannski þess vegna sem myndin af henni í hugum okkar er svo skýr.
Við höfum misst vinkonu, sambýliskonu, nágranna, bekkjarsystur, sessunaut og samferðakonu og ferðalagið verður snautlegra hér eftir án hennar.
En hugur okkar og hjarta er hjá Óla Teiti, Guðna og Kára sem hafa misst fullkomna eiginkonu og móður sem gaf þeim öllum ást og umhyggju og strákunum breiðu brosin og fallegt hjartalag. Allar góðar vættir styrki þá í sorginni og Guð blessi minningu Engilbjartar.
Gísli Marteinn Baldursson
Vala Ágústa Káradóttir
Við vorum í háskólanum þegar Óli og Engilbjört fóru að draga sig saman og það leið ekki á löngu þar til við vorum öll fjögur komin saman til Sádi-Arabíu að vinna við pílagrímaflug. Við bjuggum saman í íbúð í Rose Village í Jeddah og betra sambýlisfólk var ekki hægt að hugsa sér. Mörgum árum síðar þegar Óli Teitur talaði um Engilbjörtu við okkur vini sína skömmu fyrir brúðkaup þeirra sagði hann að hún hefði einstakt lag á að fínstilla hann eins og góðan gítar - þannig að líf hans væri ekki faskt heldur í fallegum samhljómi. Einmitt þannig var líka að búa með Engilbjörtu. Allt í kringum hana var í einstöku jafnvægi. Hún var alltaf kát, alltaf með á nótunu, stutt í brosið, föst fyrir þegar þurfti en aldrei frek og dillandi hlátur gerði allt gott.
Okkur eru minnisstæðar ótal stundir í Jeddah við eldamennsku, púsl, sólböð, bæjarferðir og hvers konar hangs þar sem nærvera Engilbjartar er hlý og einlæg og skapaði gott andrúmsloft. Og aldrei neitt vesen. Hún þoldi ekki vesen.
Eftir Jeddah fórum við fjögur saman til Þýskalands einn vetur í skiptinám og þegar heim var komið leið ekki á löngu þar til við vorum öll flutt saman inn á Melhaga 12. Engilbjört og Óli í risinu og við á hæðinni fyrir neðan. Sameiginlegur inngangur og stigagangur og á þessum árum reyndust hurðir hinn mesti óþarfi því að bæði krakkarnir og við sjálf þvældumst endalaust á milli íbúða og oftar en ekki enduðu allir á öðrum hvorum staðnum í kaffi, mat eða rauðvínslús. Dásamleg kommúna í hinum borgaralega Vesturbæ.
Kannski var það einstakt jafnaðargeð Engilbjartar og sterkur persónuleiki sem gerði það að verkum að jafnvel þótt hún sé ekki lengur hér finnum við ennþá svo sterkt fyrir henni. Minningarnar eru sannar og hlýjar og við höfum á tilfinningunni að þær muni ekkert fölna með árunum.
Engilbjört sat óvenju vel í sjálfri sér, eins og sagt er, og það er kannski þess vegna sem myndin af henni í hugum okkar er svo skýr.
Við höfum misst vinkonu, sambýliskonu, nágranna, bekkjarsystur, sessunaut og samferðakonu og ferðalagið verður snautlegra hér eftir án hennar.
En hugur okkar og hjarta er hjá Óla Teiti, Guðna og Kára sem hafa misst fullkomna eiginkonu og móður sem gaf þeim öllum ást og umhyggju og strákunum breiðu brosin og fallegt hjartalag. Allar góðar vættir styrki þá í sorginni og Guð blessi minningu Engilbjartar.
Gísli Marteinn Baldursson
Vala Ágústa Káradóttir