Elsku vinkona okkar er nú fallin frá og það alltof snemma og alltof óvænt. Engilbjörtu kynntumst við þegar við störfuðum allar saman sem flugfreyjur rétt eftir aldamótin. Við smullum allar strax vel saman og það var ekki leiðinlegt að sjá að á skránni áttum við nokkrar ferðir þann mánuðinn saman. Eftir sitja nú minningar frá frábærum tíma þar sem við eignuðumst góða og trausta vinkonu en Engjó eins og við kölluðum hana var mjög lífsglöð, lausnamiðuð og eldklár og hún var ekki að mikla hlutina fyrir sér. Eftir að við fórum allar að starfa við annað en flugið héldum við alltaf traustu og góðu sambandi. Stofnaður var matarklúbburinn Black Russian sem hittist reglulega og hélt stórkostleg boð. Þegar matarklúbburinn byrjaði var mikill metnaður lagður í eldamennskuna og allir komu með heimatilbúnar kræsingar sem breyttist svo með tíð og tíma því yfirleitt gleymdist að borða eftirréttinn og meira var drukkið og dansað en borðað. Þar lét Engjó ekki sitt eftir liggja. Það er erfitt að trúa því að hún elsku Engjó okkar sé nú farin og hennar verður sárt saknað af okkur Suðurnesjasystrum eins og hún átti til að kalla okkur. Ólafi Teiti og fjölskyldu vottum við okkar dýpstu samúð.
Þínar vinkonur,
Sigrún Ósk Elmers og Steinunn Ólöf Benediktsdóttir
Þínar vinkonur,
Sigrún Ósk Elmers og Steinunn Ólöf Benediktsdóttir